Snúum okkur að því sem mestu máli skiptir

AlþingiÖllum að óvörum impruðu stjórnarflokkarnir á því að seinka kosningum, frá því sem áður hafði verið um rætt. Sérkennilegt í ljósi þess að Samfylkingin lagði á það áherslu að flýta kosningum í síðustu ríkisstjórn og Vinstri grænir lögðu á það ofuráheerslu að kosningar yrðu sem fyrst og fluttu um það sérstakt þingmál.

Þeir segja nú að tíminn sé ekki nægur til þess að hrinda í framkvæmd verkefnum ríkisstjórnarinnar. En er það svo?

Kjarni málsins er þessi. Nú blasa við þjóðinni gríðarleg verkefni, bæði til lengri og skemmri tíma. Nú ríður á að fara í þau verk en leggja aðrar hugmyndir til hliðar. Menn verða einfaldlega að forgangsraða og leggja áherslu á þau úrlausnarefni sem snúa að heimilunum og endurreisn atvinnulífsins. Þar er um skilgreind tiltekin viðfangsefni að ræða sem menn eiga að einbeita sér að. Flóknari er sú dagskrá ekki.

Við þingmenn - úr öllum flokkum fullyrði ég, - erum tilbúnir til slíkrar vinnu. Við Sjálfstæðismenn höfum enda sýnt það að við nálgumst verkefnun út frá efni máls og viljum þoka góðum málum áfram. Við hljótum að sinna þeirri lýðræðislegu skyldu okkar sem minnihluti á Alþingi að veita eðlilegt aðhald. En við viljum gjarnan vinna að skynsamlegum málum með öðrum stjórnmálaflokkum.

En þá verða menn að kunna að takmarka sig. Við getum ekki tekið dýrmætan tíma okkar frá lífsnauðsynlegum viðfangsefnum til þess að sinna verkefnum sem geta beðið næsta kjörtímabils. Þjóðin unir því ekki að menn dvelji dögum og vikum saman við verkefni sem ekki lúta að því treysta hag heimilanna og byggja stoðir undir atvinnulífið.

Þetta hljóta allir að skilja.

Við finnum kröfuna út um allt samfélagið um að áfram sé tekið á málum. Brugðist við þeim vanda sem steðjar að fólki og fyrirtækjum og mörkuð framtíðarstefna, sem unnt sé að hrinda í framkvæmd. Það er ærið starf, sem menn hljóta að geta sammælst um, en fullkomlega er ástæðulaust að taka dýrmætan tíma þingsins til stórmála sem ekki lúta að þeim brýnu verkefnum dagsins sem allir vita hver eru.

Svo skulum við ekki gleyma því að nú situr minnihlutastjórn á Alþingi, sem verður að semja sig í gegn um afgreiðslu allra mála. Allir sjá að slík stjórn hefur ekki pólitískt umboð til þess að marka línur um aðskiljanleg mál sem vel geta beðið nýs þings og nýrrar ríkisstjórnar.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband