2.3.2009 | 18:56
Forgangsröðum rétt
Því verður ekki að óreyndu trúað að ríkisstjórnin taki ekki í útrétta sáttahönd og leggi kapp á að sinna fyrst og fremst þeim málum á Alþingi sem snúa að efnahagsmálum, atvinnuuppbyggingu og hagsmunum heimilanna. Það var það sem forystumenn okkar þau Geir H. Haarde og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir lögðu áherslu á, á Alþingi nú síðdegis.
Það olli óneitanlega vonbrigðum að heyra Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra daufheyrast við þessu, en vonandi skiptir hún um skoðun.
Við getum ekki leyft okkur við þessar aðstæður að dreifa athyglinni og kröftunum. Það blasir við að verkefnin eru þau sem ég nefndi hér að framan, atvinnu og efnahagsmál og hagsmunir heimilanna. Það hlýtur að vera forgangsröðunin.
Vissulega er það áhyggjuefni að verkstjórnin er þannig við ríkisstjórnarborðið að mál koma seint og illa fram og forgangsröðunin er eins og hún er. Nú er bara búið að afgreiða eitt þingmál ríkisstjórnarinnar. Lögin um Seðlabanka; sem var í grunninn illa undirbúið og flausturslegt. Fáein mál eru komin til þings og eru í þingnefndum, önnur og margboðuð mál sem sögð eru skipta tugum, eru á einhverri óskilgreindri siglingu, en hafa ekki litið dagsins ljós.
Samt sem áður er vel hægt að ljúka áríðandi málum á þeim fáu dögum sem þingið hefur til umráða að öllu óbreyttu. En þá verður ríkisstjórnin vitaskuld að láta af þeirri þrákelkni sinni að vilja afgreiða mál sem ekki lúta að þeim meginverkefnum sem blasa við stjórnvöldum.
Það getur hreinlega ekki verið að stjórnvöld séu svo heillum horfin að ætla að stritast við mál sem vel geta beðið nýs þings nú um mitt þetta ár eða þá haustsins. Menn verða að kunna að forgangsraða og slá af tildurslegum metnaði sínum.
Þjóðin á það ekki skilið að brýnustu hagsmunum sé vikið til hliðar fyrir málum sem þola bið og krefjast mikillar samfélagslegrar umræðu áður en þau verða afgreidd.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook