Laun stuðningsins eru vanþakklæti

FramsóknMjög skrýtin staða er komin upp á Alþingi og almennt í stjórnmálunum. Fyrir liggur að Framsóknarflokkurinn hefur skuldbundið sig til að verja minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri Grænna. Sú skuldbinding felur ekki í sér nein fyrirheit um að styðja einstök mál hennar. Um það ber að semja. Framsóknarflokkurinn er greinilega í huga ríkisstjórnarflokkanna eins konar þriðja hjól á vagninum.

Við ríkisstjórnarmyndunina um mánaðarmnótin janúar/febrúar kom glögglega í ljós hvert hlutverk Framsóknarflokkurinn átti að leika, að mati VG og Samfylkingar. Hann átti að vera einhvers konar gefin stærð, sem hægt væri að grípa til eftir hentugleikum. Þetta mislíkaði Framsóknarflokknum - eðlilega og mótmæltu. Því dróst ríkisstjórnarmyndunin, eins og kunnugt er.

Nú er hafinn nýr kafli í þessu leikriti. Nú er sem sé komið á daginn að ríkisstjórnarflokkarnir ætla að kasta Framsóknarflokknum út í ystu myrkur, strax og þeir fá til þess færi.

Þetta sést á þeim lítt dulbúnum yfirlýsingum um að koma á nýrri ríkisstjórn, bak kosninga þar sem Samfylking og Vinstri grænir koma einir að verki; fái þeir til þess nægjanlegan þingstyrk. Það er greinilega ekki gert ráð fyrir Framsóknarflokknum í þeim áformum.

Ráðherrastólarnir fjórir, sem nú eru geymdir og ætlaðir til ráðstöfunar eftir kosningar, eiga samkvæmt hinum nýju áformum að falla VG og Samfylkingu í skaut. Ekki framsóknarmönnum, eins og sennilega var hugsunin í upphafi. Þetta er nú að renna upp fyrir öllum sem fylgjast með.

Þakklætisvotturinn fyrir vel unnin störf að stuðningi við ríkisstjórnina er sem sagt þessi. Að Framsóknarflokkurinn fái ekki aðild að ríkisstjórn.

Oft er sagt að laun heimsins séu vanþakklæti. Nú er greinilegt að ætlunin er að Framsóknarflokkurinn fái að reyna það á eigin skinni.

 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband