10.3.2009 | 08:55
Vextirnir eru hengingaról almennings og atvinnulífs
Umræðurnar í þinginu í gær um endurreisn efnahagslífsins ollu miklum vonbrigðum. Innlegg forsætisráðherra og fjármálaráðherra var eins konar endurtekið efni frá blaðamannafundum. Steingrímur J. barmaði sér yfir erfiðu starfi sínu ( eins og vanalega) og Jóhanna sagði okkur að lítið hafi gerst í ríkisstjórninni sem hún sat í fram í febrúar ( eins og vanalega) þótt staðreyndir segi aðra sögu. Stefnumótunin sem glitti í var sjálfhælin og óljós skírskotun til fyrirheita, sem öngva hönd mátti festa á.
Það var fyrst eftir að við höfðum, all nokkrir þingmenn, gert að forsætisráðherra harða hríð varðandi hina svimandi háu stýrivexti að talið varð ögn skýrara. Við fengum hana til að segja nánast að stýrivextir yrðu lækkaðir eftir viku. Það er vonum seinna.
Verðbólgan er á hraðri niðurleið, líkt eins og við höfðum sagt fyrir áramótin að yrði raunin. Gengið er að styrkjast, í samræmi við þær efnahagsáætlanir sem við höfðum lagt upp með fyrir áramótin; og Steingrímur J og félagar hans í VG höfðu gagnrýnt hvað harðast vel að merkja. Sterkara gengi í bland við lækkandi innflutningsverðlag á mörgum sviðum, lægra húsnæðisverð, horfin eftirspurnarspenna, samdráttur og svo framvegis og svo framvegis. Allt mun þetta leiða til skarprar lækkunar á verðbólgu.
Eftir hverju er þá verið að bíða með vaxtalækkun?
Og þegar við bætist síðan að vextir allt í kring um okkur eru að fara niður að núllpunkti, þá sjá allir að þetta vaxtastig sem er núna er algjörlega galið.
Sérstaklega af því að það er stórskaðlegt. Núna er það eins og myllusteinn eða hengingaról fyrir heimilin og atvinnulífið. Bændur sem fara til dæmis í bankann sinn til að fá lán fyrir áburðakaupum fyrir vorið, fá slík lán ekki nema á amk. 25% vöxtum. Fólkið sem vill dytta að húsunum sínum fær sömu trakteringar. Og atvinnulífið úti um allt land sem þarf eðlilegt rekstrarfé, til þess að fjármagna birgðahald eða aðra hluti sem rekstrinum fylgja, fær einungis slíka fjármagnsfyrirgreiðslu á sama tíma og arðsemin í atvinnulífinu minnkar og þar með getan til þess að standa undir fjármagnskostnaði.
Við svona aðstæður er þessi pengingamálastefna stórháskaleg og algjörlega tilefnislaus. Og það sem meira er. Samkvæmt áliti Samtaka ativnnulífsins myndu lægri vextir skapa 7 þúsund störf; lækka atvinnuleysið um nær helming.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook