Rannsóknunum verður að hraða

RannsóknÉg sat á Sprengisandi Bylgjunnar undir stjórn Sigurjóns M. Egilssonar nú í morgun. Ásamt mér voru alþingismennirnir Siv Friðleifsdóttir og Björgvin G. Sigurðsson. Umræðuefnið var staðan í stjórnmálum eftir prófkjörshrinuna þau stóru mál sem verið er að rannsaka í kjölfar bankahrunsins.

Það var samdóma skoðun okkar, eins og mér hefur fundist koma mjög vel fram í viðræðum við almenning á síðustu dögum, að samfara endurnýjunarkröfu þá sé uppi mjög ríkur vilji til þess að þingið skipi einnig reynslumikið fólk. Ekki síst við þessar aðstæður.

Björgvin benti til dæmis á að leiðtogar ríkisstjórnarflokkanna séu reynslumestu þingmenn okkar. Og í prófkjörum helgarinnar endurspeglast þetta. Hjá Sjálfstæðisflokknum fengu þingmennirnir almennt brautargengi í Reykjavík, í Suður og Suðvesturkjördæmi má segja að úrslitin hafi verið sambland af endurkjöri þingmanna og endurnýjun.

Umræðan snerist síðan að bankamálunum og fjármalakreppunni. Í máli mínu lagði ég mjög mikla áherslu á nauðsyn þess að allir þeir sem fást við rannsókn á bankahruninu, orsökum og afleiðingum fái ríkulegar heimildir. Til þess hefur alltaf staðið vilji okkar sjálfstæðismanna og því erum við tilbúin að styrkja enn þennan grundvöll með lagasetningu gerist þess þörf. Mörgum óaði við þegar Björn Bjarnason þáv. dómsmálaráðherra gerði grein fyrir umfangi þess verks sem hinn sérstaki saksóknari stæði frammi fyrir. Núna gagnrýnir það enginn; miklu frekar að kallað sé eftir frekari rannsóknum, meiri mannafla og þess háttar.

Svo má ekki gleyma því að málefni tengd bankahruninu eru víða til skoðunar. Til dæmis hjá Fjármálaeftirlitinu. Mjög mikilvægt er að þar sé málum hraðað. Óþægilega oft heyrir maður að hin og þessi mál séu þar til skoðunar, en færra segir af lyktum þeirra athugana. Þetta kallar fram tortryggni og óánægju.

Allra hluta vegna verðum við að fara sjá niðurstöður einhverra þessara mála. Þjóðin krefst þess og jafnframt að allar slíkar niðurstöður séu gerðar heyrum kunnar, líkt eins og gerist hjá öðrum eftirlitsstofnunum okkar. Leyndarhjúpurinn mengar andrúmsloftið og spillir umræðunni. Þess vegna er svo mikilvægt að málum fari að ljúka og að þau séu útskýrð.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband