16.3.2009 | 08:44
Af hverju þessar tafir á vegagerðarútboðum?
Það er gjörsamlega óskiljanlegt hversu hægt miðar við að bjóða út verkefni í vegagerð. Alls staðar hrópar þörfin, fjármunir eru til staðar, tæknilegum undirbúningi lokið, en ekkert bólar á útboðum í vegamálum. Mér satt að segja dauðbrá þegar ég gerði mér grein fyrir því að núna á tveimur og hálfum mánuði, það er þessu ári, er einungis búið að bjóða út þrjú verkefni og opna tvö tilboð. Síðasta vegagerðarverkefnið sem boðið var út, var auglýst 23. febrúar og síðan ekki söguna meir.
Þetta er auðvitað gjörsamlega ólíðandi og verður að breytast. Þess vegna tók ég þetta upp á Alþingi sl. fimmtudag og hvatti Kristján L. Möller samgönguráðherra og mikinn áhugamann um samgöngubætur, til þess að sjá til þess að úr þessu verði bætt snarlega.
Við sjáum líka að verktakar eru í mikilli þörf fyrir verkefni. Tilboðin sem hafa komið í verkefnin sem út hafa verið boðin, eru í kring um 60%, sem segir okkur allt sem segja þarf um stöðuna á verktakamarkaðnum.
Verkefni í vegagerð eru líka mjög vel til þess fallin að draga úr atvinnuleysi. Og hér fyrrmeir var oft gripið til slíkra aðgerða. Og því er spurt: Af hverju ekki núna líka ? Ríkisstjórnin hreykti sér af ýmsum áformum sínum til þess að slá á atvinnuleysi, með aðgerðum eins og þeim að fjölga listamönnum sem fá listamannalaun frá ríkinu.
Á meðan er setið á útboðsverkefnum í vegagerð, sem er himinhrópandi þörf fyrir. Samgönguráðherra nefndi töluna 6 milljarða þegar hann vék að fjármagni til nýframkvæmda sem nota mætti til útboðs núna. Það eru peningar sem myndi muna um inn í gaddfreðið hagkerfi okkar. Það myndi tafarlaust skapa hundruð starfa að minnsta kosti með beinum hætti, örva efnahagsstarfsemina og búa þannig til enn fleiri störf.
Ég trúi ekki öðru en að samgönguráðherra taki mig á orðinu og sjái til þess að Vegagerðinni verði heimilað að setja fullan kraft í útboð vegagerðarverkefna. Það standa öll rök til þess.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook