Þegar gjaldeyrishöftin eyða störfum

GjaldeyrirGjaldeyrishöftin sem við settum í vetur í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn voru réttlætanleg á þeim tíma. Þeim var ætlað að koma í veg fyrir gjaldeyrisútstreymi sem hefði sett okkur í alvarlega stöðu og veikt krónuna umfram það sem við hefðum þolað.

Nú eru hins vegar breyttir tímar. Alltaf var um það rætt að þetta væri skammtímaráðstöfun. Markmiðið væri að koma gjaldeyrisviðskiptum í eðlilegt form svo fljótt sem verða mætti, svo viðskipti á þeim markaði yrðu snurðulaus og án þess kostnaðar sem núverandi fyrirkomulag hefur í vör með sér.

Tímann á meðan gjaldeyrishöftin myndu vara, hugðust menn nýta til þess að ná samkomulagi við lánardrottnana sem eiga krónubréfin sem hanga yfir okkur sem eins konar Damoklesar sverð sem enginn veit hvenær fellur. Nú berast þær fréttir að lítt miði í þessu verki. Lánardrottnar fái misvíandi skilaboð og tíminn sé illa nýttur.

Þetta er hörmulegt. Því á meðan birtast okkur öll neikvæðu áhrifin af gjaldeyrishöftunum. Það var vitað að slíkt myndi skella á okkur eftir því sem höftin myndu vara lengur. Og nú berast fréttir af slíku, sem grafa undan samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja.

Skuggaleg dæmi

Fyrir mig hafa verið lögð slík dæmi sem sýna okkur hversu háskalegt það er að viðhalda þessum höftum svona lengi og ættu að vera tilefni til þess að lausn þessa vanda yrði sett í öndvegi og drifið í að komast að niðurstöðu.

En svona lítur ástandið út núna:

Útlendingar kaupa krónur erlendis sem auðvelt er að nálgast og greiða fyrir þær með allt öðru gengi en íslenskir útflytjendur fá hér fyrir gjaldeyrinn sinn. Þar með eru þessir útlendingar búnir að eignast krónur á kannski 50 til 80% lægra verðgildi. Með þessar krónur upp á vasann koma þeir hingað til lands og bjóða til dæmis í fisk eða aðra framleiðsluvöru og geta yfirboðið íslenska keppinauta sína.

Og ekki nóg með það. Þegar út er komið geta þeir undirboðið íslenska útflytjendur og valdið þeim þannig tvöföldum skaða. - Og í leiðinni tortímt störfum.

Svona ástandi verður að ljúka. Þetta er afleiðing langvarandi gjaldeyrisskömmtunar. Það er því ekki að undra að bæði atvinnulífið og launþegasamtökin krefjist þess að ríkisstjórnin láti hendur standa fram úr ermum á þessu sviði. Það er svo sannarlega kominn tími til. Þetta gengur ekki lengur.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband