21.3.2009 | 08:24
Reynsla og yfirsýn í öndvegi
Uppbygging samfélags okkar er brýnasta verkefni stjórnmálanna. Þrátt fyrir áföll síðustu mánaða blasa möguleikarnir við ef vel er á málum haldið. Þar mun miklu valda hver á heldur. Í slíku uppbyggingarstarfi verðum við að leiða saman reynslu og þekkingu, nýjar hugmyndir og frjóa hugsun.
Í prófkjöri okkar sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi blasir við mikil endurnýjun. Tveir þingmanna okkar hafa ákveðið að láta af störfum eftir farsælt og gott starf. Nú ríður því á að sú reynsla og þekking sem hefur byggst upp skili sér áfram inn í þau mikilvægu verkefni sem sinna þarf í kjördæminu.
Norðvesturkjördæmið er margbrotið á alla lund; ekki einasta landfræðilega vegna stærðar sinnar og stórbrotinnar náttúru, heldur vegna þeirrar fjölbreytni sem einkennir það. Þessu hefur verið lærdómsríkt að kynnast með samstarfi við fólk úr kjördæminu öllu. Þeirra forréttinda hef ég notið í ríkulegum mæli sem þingmaður kjördæmisins frá því að það varð til árið 2003.
Stjórnmálastarfið er margslungið og ögrandi enda eru úrlausnarefnin fjölþætt. Alþingi er líka einstæður vinnustaður sem vettvangur opinnar umræðu lýðræðislega kjörinna fulltrúa. Hlutverk þingsins verður vaxandi á næstunni, vegna þeirra einstæðu verkefna sem við okkur blasa.
Sú reynsla sem ég hef aflað mér, sem þingmaður og ráðherra þýðingarmikilla málaflokka mun án efa nýtast í þessum uppbyggingarverkefnum. Með skírskotun til alls þessa býð ég mig fram í 1.sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi sem fer fram nú í dag.
Okkar sjálfstæðismanna bíður það verkefni að setja fram skýra stefnu og tafarlaus úrræði vegna þeirra vandamála sem hvarvetna blasa við. Þá gildir að læra af reynslunni; horfast í augu við þau mistök sem hafa verið gerð, viðurkenna þau og umfram allt að læra af þeim. Það minnkar nefnilega enginn af því að viðurkenna það sem miður hefur farið.
En framtíðinni skuldum við fyrst og síðast það að við leggjum fram trúverðugar tillögur um mótun samfélags okkar, setjum fram skýra framtíðarsýn. Ísland er gott samfélag. Unga fólkinu okkar skuldum við að móta samfélag, þar sem allir hafi möguleika og tækifæri, óháð stöðu og búsetu. Þannig viljum við að Ísland framtíðarinnar sé.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook