26.3.2009 | 09:07
Til Landsfundar
Landsfundurinn okkar sem hefst í dag er tilhlökkunarefni, eins og alltaf. Þessi fundur er alveg einstakur og hefur fyrir vikið löngum verið öfundarefni annarra stjórnmálaflokka. Fundinn sækja 1700- 1800 manns. Konur og karlar, ungir sem eldri, fólk úr öllum stéttum og alls staðar að af landinu. Þarna hefur maður kynnst fólki sem maður hittir svo einvörðungu á landsfundum og rifjar upp kynnin. Þarna eru vináttuböndin hnýtt og kynnin efld. Þarna birtist okkur það mikla afl sem er í Sjálfstæðisflokknum jafnt í mótlæti sem í meðbyr.
Við göngum til Landsfundarins okkar við sérstakar og erfiðar aðstæður. Þjóðin glímir við óvenju erfiðar efnahagslegar aðstæður í kjölfar bankahrunsins. Skoðanakannanir eru okkur mótdrægar. Við völd er sundurleit vinstri stjórn, ráðalaus í besta falli á hinum góðu dögum sínum og orðlögð fyrir ofríkistilhneigingar og tilskipanatón sem einkennir framgang hennar.
Á Landsfundinum bíða okkar erfið verkefni, sem miklu varðar að vel séu af hendi leyst. Þannig mun það einnig verða núna.
Á vegum flokksins hefur starfað sérstök Evrópustefnunefnd nú í vetur, sem kynna mun afrakstur starfs síns fyrir okkur landsfundarfulltrúum. Þá mun nefnd um endurreisn efnahagslífsins, gera grein fyrir starfi sínu og tillögum. Báðum þessum nefndum var valið erfitt hlutverk. Þær líta til baka, til þess að læra af fortíðinni, en umfram allt hljóta þær að marka okkur vegvísi til framtíðar.
Álíka starf er ekki unnið á vettvangi annarra stjórnmálaflokka. Þar líta menn ekki til baka til þess að læra af fortíðinni. Telja sér nægja að afgreiða þau mál með yfirborðskenndum frösum. Hjá okkur nálgumst við verkefnið með opnum lýðræðislegum hætti og finnum niðurstöðu á gríðarlega fjölmennum Landsfundi okkar.
Á þessum Landsfundi verða líka þau þáttaskil að Geir H. Haarde lætur af formennsku. Hann hefur verið einn áhrifamesti stjórnmálamaður síðari ára og notið mikilla vinsælda og virðingar í okkar röðum. Geir stofnaði til kynna við ótölulegan fjölda fólks út um allt land á meðan hann var þingmaður, varaformaður og formaður. Þessa naut hann ríkulega þegar að flokki okkar - og honum sérstaklega - var sótt með ódrengilegum og á stundum óþverralegum hætti.
Ný forysta verður síðan kosin á lokadegi landsfundar og síðan höldum við ótrauð til móts við kosningarnar þann 25. apríl nk.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook