30.3.2009 | 08:31
Frá Landsfundi
Vel heppnuðum Landsfundi okkar sjálfstæðismanna er nú lokið. Við höfum markað okkur stefnu í helstu málaflokkum og kosið nýja forystu. Bjarni Benediktsson verður glæsilegur og vinsæll formaður; til þess hefur hann alla burði og allar forsendur. Með kjörinu á Landsfundinum sótti hann óskorað umboð til landsfundarfulltrúa, sem skiptir vitaskuld miklu máli. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fékk afdráttarlausa kosningu, 80% atkvæða, sem segir að sjálfstæðisfólk er ánægt með störf hennar.
Veganesti okkar út í kosningabaráttuna sem er framundan, eru þær ályktanir sem við samþykktum. Stjórnamálaályktunin er á vissan hátt grunnur þess erindis sem við flytjum með okkur nú þegar við göngum til kosninga. Hin yfirgripsmikla vinna Evrópunefndarinnar og Endurreisnarnefndarinnar eru síðan bakfiskur í gríðarlega mikilvæga umræðu sem fram mun fara; annars vegar um evrópumálin og hins vegar um stöðu efnahagsmála, þar sem áherslan verður á lausnir til framtíðar.
Þessi stefnumörkun okkar er skýr og markviss.
Tökum evrópumálin fyrst. Þar segir í ályktun okkar: "Sjálfstæðisflokkurinn hefur talið að aðild að Evrópusambandinu þjóni ekki hagsmunum íslensku þjóðarinnar en jafnframt talið mikilvægt að sífellt sé í skoðun hvernig hagsmunum Íslands verði best borgið í samstarfi Evrópuríkja. Endurnýjað hagsmunamat hefur ekki leitt til grundvallarbreytinga á afstöðu Sjálfstæðisflokksins".
Varðandi endurreisnarmálin þá er sú ályktun í all mörgum efnisliðum. Við fórum í gegn um heiðarlegt uppgjör við fortíðina; nokkuð sem aðrir flokkar hafa ekki treyst sér í. En síðan hitt, sem er aðalatriðið; við mörkum ítarlega stefnu um hvernig við getum unnið okkur út úr þeim vanda sem við erum í.
Landsfundir Sjálfstæðisflokksins hafa einlægt verið öfundarefni okkar pólitísku andstæðinga. Þannig er það núna og þannig verður það líka áfram. Kröftugir, árangursríkir og fjölsóttir fundir eins og landsfundirnir okkar, þar sem fram fara hreinskiptar umræður og lýðræðislegar kosningar, eru skiljanlegt öfundarefni andstæðinga okkar. Við skiljum það og virðum þeim það til vorkunnar
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook