3.4.2009 | 15:39
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn beitir neitunarvaldi
Við Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra vorum um það sammála í utandagskrárumræðum sem ég hóf í þinginu núna áðan, að gjaldeyrishöft væru slæm - og ótæk til langframa. Þau voru sett á sem skammtímaráðstöfun á sínum tíma, nú fyrr í vetur. Ætlunin var svo alltaf að skapa þau skilyrði að við kæmumst út úr þessu ástandi.
Að gefnu tilefni úr umræðunum í dag, er nauðsynlegt að minna á að það var Björgvin G. Sigurðsson þáverandi viðskiptaráðherra sem flutti málið á sínum tíma. Samt talaði Árni Páll Árnason þingmaður Samfylkingarinnar í einni af sínum gaspursræðum í dag, eins og flokkur hans hefði þar ekki átt neinn hlut að máli.
Þetta er þó ekki aðalatriði. Það er í sjálfu sér aukaatriði þó samfylkingarmenn þori ekki gangast við verkum sínum. Svo alvanalegt er að heyra þá tala með slíkum hætti.
Kjarni málsins er sá að gjaldeyrishöftin voru réttlætanleg á þeim tíma sem þau voru sett á; en einungis sem skammtímalausn, eins og ég hef áður bent á. Það er nauðsynlegt að feta sig út úr þessu fari. Ella gerist það bara áfram sem við höfum séð; að við gröfum okkur dýpra í haftafenið.
Ég spurði eftir því hvað gert hefði verið. Það var ekki uppörvandi að ekkert er handfast í þeim efnum. Svörtin voru óljós og almenn og alls ekki fullnægjandi. Viðskiptaráðherra sagði unnið að málunum. En svo upplýsti hann eitt sem mér er ekki kunnugt um að hafi komið upp á yfirborðið fyrr.
Ráðherrann greindi frá því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) hefði lagst gegn þeim lausnum sem helst hefur verið talað um til þess að slaka á spennunni og gera okkur kleyft að ráðast gegn vandamálinu. Þetta bætist við þær upplýsingar sem áður höfðu komið fram, að sjóðurinn vildi ekki fara að ráðum Seðlabankann um gjaldeyrisuppboð sem sett höfðu verið fram fyrr í vetur.
Þegar ég innti viðskiptaráðherra eftir því hvort Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði lagt fram aðrar tillögur svaraði hann neitandi og sagði raunar að sjóðurinn hefði ekki virst hafa miklar áhyggjur af þessu máli, eða gert mikið úr vandanum vegna haftanna.
Þetta eru stórtíðindi. Ríkisstjórn og Seðlabanki leggja fram tillögur til að taka á vanda sem allir eru sammála um að er mikill. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafnar og þar við situr. Sjóðurinn virðist hafa þarna neitunarvald og ráða förinni gagnstætt vilja íslenskra yfirvalda.
Svona getur þetta ekki gengið. Það hlýtur að vera meðal forgangsmála að koma okkur út úr höftunum, þó það muni taka tíma. Það er ekki hægt að una við það að AGS stoppi svona mál, sem Alþingi, ríkisstjórn og Seðlabankinn eru sammála um að séu forgangsatriði
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook