Menntamálaráðherra lætur undan þrýstingi - loksins

Háskólatorg H.Í.Loksins lét menntamálaráðherra undan þeirri kröfu stúdenta, okkar þingmanna Sjálfstæðisflokksins og fleiri að opna á möguleika á háskólastúdentar geti stundað nám á sumarönn nú í sumar. Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Bifröst höfðu þegar opnað á slíkar leiðir, en eftir stóð að fjölmargir háskólastúdentar voru í rauninni á köldum klaka, vegna þess að atvinnuleysi blasir við þeim fjölmörgu og ekkert var í höfn um að þeir gætu stundað nám í sumar.

Það væri skelfileg tilhugsun ef þúsundir háskólastúdenta þyrftu að mæla göturnar í sumar. Í ljósi hins vonda atvinnuástands er vitaskuld skynsamlegast að opna möguleika á að nemendur háskólanna geti nýtt tímans til náms.

Þess vegna hófum við að reyna að þrýsta á stjórnvöld að bregðast við. Fyrir lá að háskólarnir höfðu áhuga á að opna á námsleiðir í sumar. Stúdentar kölluðu eftir því, við sjálfstæðismenn gerðum það einnig og sú krafa endurómaði úr þjóðfélaginu.

Ríkisstjórnin sat hins vegar hjá þögul og sagði ekki orð. Ekkert heyrðist frá menntamálaráðherra. Menntamálaráðuneytið hafði engar upplýsingar um þessi mál, sem hönd var á festandi, þegar við kölluðum eftir þeim. Ég beitti mér fyrir því að menntamálanefnd Alþingis yrði kölluð saman til þess að ræða málin og við fengum á okkar fund fulltrúa háskólanna, fulltrúa háskólastúdenta og síðan fulltrúa menntamálaráðuneytisins.

Vandinn var sá að stjórnvöld voru eins og úti á þekju þegar við ræddum þessi mál og engin pólitísk lína fékkst úr ráðuneyti menntamála vegna þessa brýna máls. Fyrst eftir langa mæðu birtist mæðulegur, ungur menntamálaráðherra á tröppum stjórnarráðsins til þess að segja okkur að erfitt væri að verða við þessari kröfu. Það voru skilaboðin til 12 þúsund námsmanna sem nú leita sér að atvinnu.

Því ber hins vegar að fagna að loksins hefur fæðst ákvörðun hjá ríkisstjórninni. Nú bíðum við eftir viðbrögðum háskólanna, en varla er við öðru að búast en þeir bregðist við og opni á sumarnámskeið fyrir háskólastúdenta.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband