13.5.2009 | 10:42
Hreinræktaða útgáfan
![Vinstri stjórnin á Bessastöðum](http://www.ekg.is/media/einar/small/rikisstjorn_8mai09.jpg)
En hin óblandaða og hreinræktaða vinstristjórn er þegar farin að sýna eiginleika sína, sem ekki hafa sést áður; ekki einu sinni í vinstriblendingunum sem áttu þó ýmislegt kostulegt til.
Hér er átt við hið makalausa verklag við mótun stefnu í ESB-málum, sem ekki á sér hliðstæðu. Gætum að því að hér erum við að tala um stærsta mál ríkisstjórnarinnar. Þar standa fylkingar ríkisstjórnarliðanna sem gráar fyrir járnum hver gegn annarri; ekki endilega hvor gegn annarri, því ekki vitum enn hve þessar fylkingar eru margar.
Einkenni þeirra vinstristjórna sem ekki voru hreinræktaðar var sundurlyndið. Vinstriblendingarnir áttu þó jafnan sína hveitibrauðsdaga þar sem sæmilegur friður ríkti framan af. Í hinni hreinræktuðu útgáfu fáum við ríkisstjórn sem hefur vegferð sína á því að kynna þjóðinni sundurlyndisfjandann í eigin herbúðum, alveg frá fyrsta degi. Nú fáum við að kynnast sundurlyndinu í óblönduðum skömmtum, þar sem áhrifin verða þess vegna ennþá sterkari og koma þar af leiðandi fram strax á fyrsta degi.
Okkur er sagt að þetta sé lýðræðisleg leið við að leysa ágreiningsmál. Megum við þá ekki búast við slíku í öðrum málum? Er þess kannski að vænta að fjárlagafrumvarpið í haust verði afgreitt í andstöðu við einhverja ráðherra og í blóra við vilja tiltekinna þingmanna? Spurningarnar hljóma kannski fráleitar, en gleymum því ekki að við lifum óvenjulega tíma. Við erum komin með hreinræktaða vinstristjórn. Hún hefur þegar kynnt okkur ný vinnubrögð, svo nú er við öllu að búast.
Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 12. maí. 2009.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook