Klækjarefirnir komnir á kreik

BorgarahreyfinginBorgarahreyfingin lét klækjarefina í Samfylkingu og hjá Vinstri grænum plata sig strax á fyrsta degi. Með því að ganga til liðs við ríkisstjórnarflokkana við kjör i nefndir má segja að hreyfingin hafi brotið tvö megin prinsipp sín.

Í fyrsta lagi er ljóst að með þessu tekur hreyfingin stöðu með ríkisstjórninni og ákvörðun þingmanna hennar veldur því að hér eftir má ljóst vera að þeir starfa í nefndum í skjóli ríkisstjórnarflokkanna. Andófshópur sem tekur sér stöðu undir pilsfaldi ríkisstjórnar á fyrsta þingdegi brýtur óneitanlega í blað!

Í annan stað veldur þessi ákvörðun því að styrkleikahlutföll stjórnmálaflokkana sem leiddu af kosningunum bjagast. Hlutur stjórnarflokkanna tveggja og fylgihnattar þeirra verður sterkari á kostnað stjórnarandstöðunnar. Þessi styrkleikahlutföll eru ekki í samræmi við úrslit þingkosninganna.

Þetta eru sem sagt fyrstu skrefin sem Vinstri hreyfingin grænt framboð, Samfylkingin og Borgarahreyfingin stíga í átt að því sem þau hafa kallað lýðræðisumbætur. Vonandi markar þetta skref ekki vegferðina að öðru leyti. En ljóst er að þetta segir okkur allt um það hver er raunverulegur vilji ríkisstjórnarinnar til samstarfs. Hann er bersýnilega ekki mikill. Tilskipana- og ofríkisstjórnin sem mynduð var 1. febrúar sl. er enn á ferðinni.

Það er ljóst hverjir eru gerendur og hverjir eru þolendur í þessum bellibrögðum. Það er verið að nota sér reynsluleysi og hrekkleysi þingmanna Borgarahreyfingarinnar, til þess að veikja stöðu stjórnarandstöðunnar í nefndum og til þess að skaffa ríkisstjórninni fleiri þingmenn í þingnefndum,en kosningaúrslit gáfu tilefni til. Flóknara er það ekki !




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband