Hverjir hafa séð Icesave samninginn?

icesaveIcesave -málið verður æ skrautlegra eftir því sem það tekur á sig fleiri myndir. Nú er það nýjasta að hreinn vafi leiki á hvort þessi fjárhagsskuldbinding upp á 600 til 700 milljarða verði opinber. Frá því máli hefur bersýnilega verið gengið þannig það er á valdi ríkisstjórna Breta og Hollendinga hvernig með þau mál verði farið. Það er semsagt hollvinur okkar, Gordon Brown sem fær þessu ráðið. Er þá ekki rétt að spyrja Alistair Darling líka, svo allt hryðjuverkalagagengið verði með ráðum?

Er nú ekki orðið dapurt hlutskipti Steingríms J. að skrifa bréf til Gordons Brown sem er einhvern veginn svona: Má ég kæri Gordon sýna þjóðinni minni og þinginu samninginn sem við vorum að gera...?

Það er alveg kórrétt hjá Álfheiði Ingadóttur formanni Viðskiptanefndar þingsins; þessi mál verða ekki leidd til lykta nema nauðsynleg gögn liggi fyrir og þar með talið þessi samningur, sem er orðinn að einhvers konar leynisamningi. Og það er auðvitað makalaust að á því leiki einhver vafi hvort þingið, sem ætlað er að taka afstöðu til samningins, fái hann í hendur !

Samningar af þessu tagi eru jafnan óskaplegt torf, skrifaðir á lagaflækjumáli, sem erfitt er að skilja nema með mikilli yfirlegu. Ensk lagahugtök, á sérhæfðu málasviði, munu helst vera á færi innvígðra og þess vegna er alveg ljóst að það er ekki áhlaupsverk að komast til botns í þessu máli. Fyrir utan nú allar þær spurningar sem koma upp um efni samningsins sjálfs.

En meðal annarra orða og þetta er spurning sem ekki hefur verið borin upp: Hvaða Íslendingar hafa þennan samning undir höndum? Jú, klárlega samninganefndin. En ríkisstjórnin? Liggur þessi samningur í 12 ráðuneytum, á meðan  þing og þjóð hafa ekki aðgang að gögnunum? Er samningurinn þá í höndunum á þeim tíu þingmönnum sem sitja á ráðherrabekkjunum, en ekki okkur hinum 53, hvað þá almenningi í þessu landi? Var samningurinn við Íslandsvininn Brown upp á þau býti að sumir þingmenn fengju samninginn og alls ekki þjóðin ?

Og svo eitt að lokum. Það er óhugnanlegt en það virðist þó svo. Ríkisstjórnin hefur að því er sýnist skrifað upp á samning við aðrar þjóðir með 6-700 milljarða skuldbindingu, án þess að hafa gengið úr skugga um hvort hún gæti fullnustað samninginn. Málið er núna þannig statt að það er einhvers konar ágiskanakeppni í gangi. Þetta er örugglega einsdæmi í lýðveldissögunni; ríkisstjórn sem skrifar upp á samning sem ekki má kynna opinberlega og sem enginn veit hvort samþykktur verður á þjóðþinginu. Þetta er ótrúlegt, en þetta er hvorki fyndið né hlægilegt.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband