22.6.2009 | 20:51
Fyrningin bitnar á landsbyggðinni - segja opinber talnagögn
Engan þarf að undra þó brugðist sé hart við í sjávarbyggðum landsins, þegar hugmyndum um fyrningu veiðiréttar er ýtt á flot. Það er augljóst að fyrning aflaheimilda og skerðing veiðiréttar mun fyrst og fremst valda óvissu í sjávarbyggðum landsins. Aflaheimildirnar eru nefnilega að lang mestu leyti staðsettar á landsbyggðinni og því munu fyrningarhugmyndirnar fyrst og fremst bitna þar.
Þetta kemur í rauninni vel fram í svari sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra sem birt á dögunum vegna fyrirspurnar sem ég lagði fram á Alþingi. Skýrar getur það í rauninni ekki verið. Við vissum svo sem flest að veiðirétturinn væri einkanlega á landbyggðinni en ekki á höfuðborgarsvæðinu, þó stundum sé annað látið í veðri vaka. En svar ráðherrans við fyrirspurn minni tekur af öll tvímæli.
Yfir 90 prósent aflaheimilda í ýsu og þorski er á landbyggðinni, og svipað og þaðan af meira í flestum öðrum tegundum. Þetta geta menn lesið í svarinu. Karfi og grálúða eru þær tegundir sem helst skera sig úr þar sem aflaheimildir í þessum tegundum eru all nokkrar á höfuðborgarsvæðinu; 30 % í grálúðu og 40% í karfa á höfuðborgarsvæðinu. Að öðru leyti má segja að nær allur veiðirétturinn sé utan höfuðborgarsvæðisins.
Þegar menn tala um að færa veiðiréttinn út til sjávarbyggðanna þá er væntanlega fremur því verið að tala um að færa veiðirétt á milli þessara byggða. Nema það séu þessi 10% kvótans sem menn vilja taka af höfuðborgarsvæðinu og færa út til sjávarbyggðanna. Sé það svo þá eiga menn að tala skýrt og segja það skorinort. Hingað til hafa menn ekki almennt talað á þann veg.
En fyrningin bitnar óumdeilanlega á þeim byggðum, þar sem aflaheimildir eru helst til staðar. Það er að segja á landsbyggðinni. Þess vegna bregðast menn svo ókvæða við fyrningarhugmyndum, víða um landsins byggðir og það alveg þvert á pólitískar línur eins og fjölmörg dæmi eru um.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook