13.7.2009 | 18:18
Dýrasti aðgöngumiði Íslandssögunnar
Evróputillaga ríkisstjórnarinnar sem Alþingi ræðir núna er merkileg fyrir margra hluta sakir. Við vitum auðvitað að hún var tilraun til að bræða saman hin óasmrýmanlegu sjónarmið stjórnarflokkanna. Samfylking vill skilyrðislaust að Ísland verði aðili að ESB. Vinstri græn hafa verið grjóthörð í andstöðu sinni við ESB aðild; - hingað til. Nú hafa þau hins vegar látið Samfylkinguna kúga sig til hlýðni í þessu máli.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og formaður VG orðaði þetta mjög skýrt í umræðum á Alþingi sl. föstudag. Hann sagði ofureinfaldlega að forsenda ríkisstjórnarsamstarfsins hefði verið að ná saman um þetta tiltekna mál. Án hennar, hefði ríkisstjórnin einfaldlega ekki komist á koppinn. Þegar tillagan er lesin er ljóst að hún er í samræmi við vilja Samfylkingar. Hún gengur hins vegar þvert á stefnu VG, sem helst vildi meira að segja að við þróuðum EES samninginn í einhvers konar tvíhliða viðskiptasamning.
En nú er öldin önnur.
Það sem Steingrímur J. var einfaldlega að segja var að ESB lendingin hafi verið eins konar aðgöngumiði VG að ríkisstjórnarborðinu. Án hans hefðu þeir ekki fengið inngöngu í samstarf við Samfylkinguna. Þetta er því örugglega dýrasti aðgöngumiði Íslandssögunnar.
Undir þessum kúgunartilburðum Samfylkingarinnar létu VG liðar undan. Kúventu í afstöðu sinni og fóru inn í prósessíuna með ESB sinnunum í Samfylkingunni.
Ætli það hræri ekki við pólitískri samvisku ESB andstæðinga í VG að sjá hversu Samfylkingunni líkar þessa niðurstaða vel? Við vitum um fimmmenningana í VG sem hafa haft uppi svardaga og undirstrikað andstöðu sína. En ekki verður annað skilið en að í VG láti aðrir sér vel líka að Sanmfylkingin vaði yfir sig, með gleðiópum og húrrahrópum. Verði niðurstaðan sú á Alþingi í vikunni að ganga til aðildarviðræðna, þá er það gert með tilstyrk Vinstri grænna. Þeir munu því bera fulla ábyrgð á því að þetta örlagaskref verði stigið.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook