20.7.2009 | 15:55
Phyrrosar-sigur VG
ESB málið hefur reynt mikið á innviði Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Afleiðingarnar eru þær sem hver stjórnmálaflokkur óttast alltaf mest. Flokkurinn hefur misst trúverðugleika sinn og trúnað við kjósendur sína. Það blasir við öllum sem það vilja sjá að flokkurinn lagði eitt helsta grundvallarmál sitt, andstöðuna við ESB, í sölurnar. Verðmiðinn var aðgangur að ríkisstjórnarsamstarfinu við Samfylkinguna.
Þetta viðurkenndi formaður flokksins, Steingrímur J. Sigfússon í reynd í þingræðu á Alþingi, 10. júlí sl. þegar hann sagði að núverandi ríkisstjórn hefði ekki verið mynduð án viðlíka yfirlýsingar. Það er örugglega rétt hjá honum, Samfylkingin hefur án efa gert þetta mál að úrslitaatriði.
Með því að fallast á þessa kröfu er VG orðið að ábyrgðaraðila málsins. Það var því ekki bara Samfylkingin sem hrósaði sigri í þessu máli. Það er gerði samstarfsflokkurinn líka sem gaf fyrirheit um að koma þessu máli í höfn.
En þessi sigur er dýrkeyptur. Dapurlegt var að sjá og heyra þingmenn og ráðherra flokksins klæmast á stuðningi sínum við málið. Þeirra ræður voru samansúrruð fordæming á ESB og öllu því sem það bandalag þýðir. En svo var lýst yfir stuðningi við að sótt skyldi um aðild að ESB. Þvílíkt og annað eins! Vilji menn sjá þetta og heyra er hægt að nálgast ósköpin á þessari slóð, ræða Ögmundar Jónassonar heilbrigðisráðherra og þessari slóð einnig, atkvæðaskýring Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra.
VG er núna í sporum hins gríska Phyrrosar konungs frá Epirus, sem vann svo dýrkeyptan sigur á erkifjendum sínum Rómverjum að hann tapaði sínum helstu bandamönnum og vöskustu hermönnum. Fleyg urðu svo orð hans um að einn sigur í viðbót af þessu tagi myndi algjörlega gera út af við hann. Því er slíkur sigur kenndur við hinn gríska konung og er ekki mjög eftirsóknarverður.
Þetta er hins vegar staða VG, sem lagði sitt þunga lóð á vogarskálar blinds flokkspólitísks hagsmunamats, þar sem annars vegar var hugsjónin um ESB andstöðuna og hins vegar lykillinn að ríkisstjórnarherberginu með Samfylkingunni. Hið síðara lóð vóg þyngra. VG bar fram ESB tillögu með Samfylkingunni og vann sigur í atkvæðagreiðslunni á Alþingi; sannkallaðan Phyrrosarsigur
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook