Af hverju rukka Bretarnir ekki líka fyrir kaffibollana?

KaffiIcesave málið versnar eftir því sem það vindur meira upp á sig og upplýsingarnar streyma fram. Fréttirnar í gær og í dag eru til marks um þetta. Lögfræðikostnaður eður ei. Það er ekki aðalatriðið. En sú staðreynd að breska ríkisstjórnin hafi reynt að halda til haga við samningagerð, þar sem upphæðirnar hlaupa á tvöföldum fjárlögum okkar, reikningum vegna utanumhalds við Icesave uppgjörið, sýnir hve langt þeir eru tilbúnir að seilast til þess að sýna mátt sinn og megin.

Og það er síðan táknrænt um hvernig samningarnir hafa verið höndlaðir okkar megin frá að við skulum hafa unað slíku. Þetta er niðurlægjandi fyrir okkur og sýnir í verki álit breskra tjórnvalda og samningamanna þeirra á þeim sem þeir voru að semja við; íslenska ríkið.

Það munar kannski ekki um kepp í sláturtíðinni. Og kannski munar ekki mikið um tvo milljarða hér og þar í öllu þessu Icesave móverki. En þetta er táknrænt fyrir ofbeldið frá hlið Breta og undanlátssemina frá okkar hlið að svona geti verið hluti af þessum samningi.

Málið versnar eiginlega við það, ef ekki er um lögfræðikostnað að ræða. Breskir lögfræðingar af þeirri sortinni sem fást við alþjóðlega samningi eru ekki beinlínis billegir þegar kemur að reikningsgerð. En ef ekki er hægt að réttlæta þessa samninga með hliðsjón af ofurháum lögfræðikostnaði heldur einhvers konar utanumhaldi um uppgjör, þá fyrst verður þessi upphæð óskiljanleg. Alveg fáránleg.

Ólöf Nordal alþingismaður setti málið í athyglisvert samhengi í þinginu í dag. Tveir milljarðar. Það er reikningur frá dýrum íslenskum lögfræðingi upp á 20 þúsund vinnustundir. Og reiknum dæmið áfram. Þetta svarar til vinnu 50 lögræðinga í fullu starfi í heilt ár. Eða vinna fyrir einn lögfræðing í hálfa öld.

Svo láta þeir sig ekki muna um að verja þennan skandal stjórnarliðarnir og fjármálaráðherrann. Ætlar þessu aldrei að linna? Telja þeir sig endalaust geta haldið áfram? Er öllum farið að blöskra þessi samningur nema þeim?

Ætli það eigi eftir að dúkka upp einhverjir fleiri "kostnaðarreikningar" af þessari sort. Leigubílareikningar, stöðumælasektir, samlokur á fundunum, gosdrykkir eða kaffibollar. - Eða drukku þeir kannski te; english tea, please!

Allt örugglega útlagður kostnaður hjá Bretum vegna Icesave umstangsins. Með röksemdafærslu ráðherra og þingmanna stjórnarliðsins, ætti fátt að vera því til fyrirstöðu að við öxluðum svoleiðis útgjöld, stór og smá, í Icesave samningnum.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband