26.7.2009 | 17:10
Búsorgirnar bornar á torg
Jóni mínum Bjarnasyni sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra leiðast bersýnilega samvistirnar með Samfylkingunni. Það sést á yfirlýsingu hans í útvarpinu í dag að við ættum að hætta við ESB-umsóknina vegna hótana Hollendinga og Breta út af Icesave. Auðvitað veit Jón að á hans frómu ósk verður ekki hlustað. En hann kýs hins vegar að bera búsorgir sínar á torg. Skiljanlegt er það. Honum eins og fleirum VG-liðum er farið að líða illa vegna ofríkis Samfylkingarinnar í ríkisstjórnarsamstarfinu.
En vitaskuld veit svo reyndur stjórnmálamaður að tveimur eða þremur dögum eftir ferð utanríkisráðherra okkar á fund Carls Bildt starfsbróður síns í Svíþjóð með umsóknareyðublaðið vegna ESB í farteskinu, verður ekki farið að hætta við. Össur nýbúinn að stilla sér upp til myndartöku með Carli Bildt úti í Stokkhólmi og brosa breitt. Og nú er umsóknin orðin tvíheilög. Því fáeinum dögum áður hafði sendiherra okkar í Svíþjóð farið með sams konar bréf til sænska utanríkisráðherrans - en í það skiptið voru ljósmyndarar hvurgi nærstaddir.
Hótanir og ofríki Hollendinga og Breta með tilstyrk ESB stöðva ríkisstjórnina ekki í þeirri fyrirætlan sinni að leita skjóls í náðarfaðminum í Brussel. Þær hótanir lágu allar fyrir þegar utanríkisráðherrann tók flugið til Svíþjóðar með lettersbréf til ESB.
Og svo mun stóri dagurinn að renna upp á morgun. Bréfið tvíheilaga verður þá tekið fyrir hjá ESB sjálfu.
Allt þetta veit Jón Bjarnason. Og einnig það að umsóknin að ESB er í boði Vinstri grænna. Þar á bæ var mikill stuðningur við umsóknina, þegar til stykkisins kom, eins og sést á atkvæðagreiðslunni. Ferð utanríkisráðherrans til Svíþjóðar var vitaskuld einnig með vitund og vilja VG í ríkisstjórn.
Enda fær félagi Jón á baukinn frá samstarfsfólki sínu í ríkisstjórnarsamstarfinu. Það unir því illa að ráðherra VG spilli hátíðinni með því að hvetja til að ESB umsókn sé frestað. Undan þessu mun VG svo lyppast, eins og alltaf þegar Samfylkingin reisir burstir.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook