Einn ofurlítill sólardagur

Sólardagur VGÞað kemur á daginn endrum og sinnum þetta sem sagt er; að þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Loksins rann upp dagur þegar VG liðar gátu talað sæmilega einum rómi. Þeim tókst að koma sér upp sameiginlegum óvini sem hægt var að beina spjótum sínum að. Varnarmálastofnun og loftrýmisæfingar, voru sérlega heppileg samsetning sem gjörvöll Vinstri hreyfingin grænt framboð gat sameinast um að mótmæla.

Maður skynjaði gamla herstöðvaandstæðingatakta. Kannski í bland við nostalgískar kenndir gamalla Keflavíkurgöngugarpa, þegar þeir Árni Þór Sigurðsson formaður utanríkismálanefndar Alþingis og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og flokksformaður létu andúð sína í ljósi - og það í sæmilegum takti. Maður skynjaði feiginleikann í röddinni á Steingrími. Þarna var þó kominn óvinur sem allir flokksmenn gátu notið þess að lemja á.

Sælir dagar genginna herstöðvaandstöðutíma voru líkt og runnir upp að nýju.

En brátt víkur þetta mál fyrir hinum bitra veruleika sem birtast mun við sjóndeildarhringinn áður en vikan er úti. Icesave-vandræðin gufuðu ekki upp þó menn reyndu að gleyma sér aðeins yfir því að skammast yfir svo sem einni ríkisstofnun, Varnarmálastofnun. Áfram verða þeir VG liðar svo minntir á ábyrgð sína á því að hafa dregið okkur að samningaborðinu við ESB þvert ofan í vilja flokksmanna og í blóra við kosningaloforðin. 

Í Icesave-málinu bíður ríkisstjórnarforystunnar að klára sams konar verkefni og í atkvæðagreiðslunni um ESB. Sem sé að þröngva nógu mörgum að já-takkanum á Alþingi til þess að bjarga þannig Icesave - samningsómyndinni í gegn um þingið, þvert á vilja almennings.

Einn ofurlítill sólardagur í pólitískum skilningi VG rann upp en honum lauk jafn skjótt og hann birtist. Raunveruleikinn - hinn bitri pólitíski veruleiki er enn til staðar.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband