6.8.2009 | 11:17
Þakkir til senjór Garrido
Það er ástæða til að þakka senjór Diego López Garrido, Evrópumálaráðherra Spánar. Hann sagði okkur kjarna málsins um sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins á kjarnyrtu mannamáli og var ekki með neinn blekkingarleik. Honum tókst í einu útvarpsviðtali í RÚV þann 30. júlí sl. að skýra betur þessa umræddu stefnu en maður hefur séð birtast í öllum þeim langhundum sem evrópusambandssinnaðir háskólakennarar hafa birt um umrætt efni.
Og hvað sagði senjór Garrido?
Hann sagði að það væru forréttindi sem við Íslendingar byggjum við að geta ráðið okkar sjávarútvegsmálum sjálfir. Hann sagði líka að með aðild að ESB yrðu þessi meintu forréttindi úr sögunni. Menn gætu ekki valið og pikkað út það sem hentaði úr sjávarútvegsstefnunni. Menn yrðu einfaldlega að taka yfir þessa stefnu eins og hún kæmi af skepnunni.
Gagnstætt því sem haldið hefur verið fram, segir spænski ráðherrann að sá möguleiki verði að vera til staðar að Spánverjar veiði hér við land og í aðildarviðræðum Íslendinga við ESB verði að greiða fyrir því. Og síðan sagði hann að það gæfi augaleið að við yrðum að játast sjávarútvegsstefnu ESB með kostum hennar og göllum.
Ég vakti athygli á þessu í grein í Morgunblaðinu í dag og þá grein má lesa hér á heimasíðunni.
Í niðurlagi greinarinnar dró ég stöðuna sem við stöndum frammi fyrir í sjávarútvegsmálunum með þessum orðum:
Frá íslenskum sjónarhóli er réttur okkar til þess að fara með forræði yfir fiskveiðiauðlindinni sjálfsagður réttur fullvalda þjóðar; ekki forréttindi. Frá sjónarhóli ESB er forræði okkar sem fullvalda þjóðar yfir fiskveiðiauðlindinni forréttindi. Það blasir við öllum að þetta eru ósamrýmanleg sjónarmið. En með aðild Íslands að ESB verðum við að horfa á þessi mál með augum Brussel, en ekki okkar eigin. Það eru nefnilega íslensk stjórnvöld sem eru að sækja um aðild að ESB fyrir hönd þjóðarinnar, en ESB hefur ekki sótt um að gerast partur af íslenskri löggjöf.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook