11.8.2009 | 11:45
Frá oflátungshætti að minnimáttarkennd
Það getur verið stutt á milli oflátungsháttar og minnimáttarkenndar. Fylgifiskur útrásarinnar var oft á tíðum oflátungsháttur. Dæmi: Ýmislegt sem var látið flakka þegar íslensk fyrirtæki voru að kaupa upp mörg af helstu djásnum dansks atvinnulífs og svo auðvitað stórfurðulegar yfirlýsingar Ólafs Ragnars Grímssonar út um öll lönd og álfur af ýmsum tilefnum á þessum tíma.
Núna sjáum við hins vegar ýmis merki um minnimáttarkennd. Er það til dæmis ekki alveg makalaust að hvenær sem við þurfum að takast á við einhver verkefni, þá bætir einhver spekingurinn því við að til þess þurfum við erlenda sérfræðinga. Nú síðast að við þurfum erlenda sérfræðinga til þess að meta íslenska þjóðarhagsmuni í viðræðum við ESB. Hvert á svo að sækja þá? Kannski til Hollands eða Bretlands.
Við höfum margt að sækja til útlanda, en þangað sækjum við ekki hinn endanlega sannleik. Það er heimóttarskapur að vilja ekki rækta tengsl okkar við umheiminn. Heimóttarskapur einkennir ríkisstjórnina í samskiptum við forystumenn erlendis í tengslum við Icesave málið og það er auðvitað afleitt og hefur skaðað okkur.
En skrif breska hagfræðingsins Anne Sibert sem hafa verið nokkuð til umræðu, eru dæmi um vanmat á möguleikum okkar til þess að glíma við okkar viðfangsefni á forsendum okkar sjálfra.
Vitaskuld eigum við að leita okkur ráðgjafar og aðstoðar sem víðast. En að tala eins og frú Sibert gerði, á ekkert skylt við það. Þau skrif eru miklu frekar í ætt við þá vanmetakennd sem oft hefur skotið upp kollinum þegar á móti hefur blásið í gegn um aldirnar. 21. aldar útgáfa af þeirri öldnu hugmyndafræði sem taldi íslenskt fullveldi ekki standast vegna smæðarinnar.
Gleymum því ekki að við höfum byggt hér upp gott þjóðfélag, með einhver bestu lífskjör í heimi. Gleymum því ekki að við erum vel menntuð þjóð; sem meðal annars hefur sótt sér þekkingu út um allan heim og aukið þannig víðsýnina. Og gleymum því ekki að margar þær þjóðir sem hafa átt mestri velgengni að fagna eru oft á tíðum smáþjóðir. Raunar eru flestar þjóðir í heiminum smáþjóðir í hefðbundnum skilningi og 76 þeirra telja færri en milljón íbúa, rétt eins og við.
Um þetta má fræðast frekar með því að smella á þessi orð og skoða líka meðfylgjandi yfirlit.
Fjöldi íbúa | Fjöldi landa |
Færri en 1 milljón | 76 |
1 - 10 milljónir | 76 |
10 -25 milljónir | 32 |
25 - 50 milljónir | 22 |
50 - 100 milljónir | 12 |
100 - 1000 milljónir | 9 |
1 milljarður eða fleiri | 2 |
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook