Óskaplega er þetta öfugsnúið

Financial TimesEinhvern veginn er þetta hálfvegis öfugsnúið. Leiðari í Fréttablaðinu hvetur til þess að drifið sé í að klára Icesavemálið á Alþingi til þess að hægt sé að snúa sér að næsta versi. Ekkert tillit er tekið til þess að samningsómynd Vinstri grænna og Samfylkingar er gjörsamlega óviðunandi. Bara að rusla þeim af og horfa svo fram á veginn, er tónnin sem blaðið slær.

Svo kemur hins vegar leiðari í breska viðskiptadagblaðinu Financial Times í dag, þar sem fram kemur mjög næmur og djúpur skilningur á því hversu afleitur samningur þetta er fyrir okkur Íslendinga. Skilningur á okkar viðhorfum skín í gegn í hverju orði. Það er rakið að skuldbindingarnar svari til tveggja milljóna króna á hvert mannsbarn á Íslandi (10 þúsund sterlingspund) og sé svipuð upphæð og landsframleiðsla okkar á hálfu ári. Blaðið líkir þessu við stöðuna sem kom upp í Chile árið 1982 þegar landið axlaði himinháar skuldir sem einkaaðilar stofnuðu til. Landið var skilið eftir í skuldaklyfjum, sem tók áratug að vinna sig út úr. Það sama gæti komið fyrir á Íslandi.

Athyglisverð er sú röksemdafærsla Financial Times að með því að neyta svona aflsmunar geti það stuðlað að því að Ísland taki upp einangrunarstefnu. Stuðningur við ESB umsókn fari minnkandi og að Rússar muni örugglega fylgjast vel með á hliðarlínunni. Færð eru svo rök fyrir því að Bretar og Hollendingar geti sjálfum sér um kennt. Þeim hefði átt að vera ljóst að Icesaveundrinu, með sínum ofurvöxtum, hefði ekki mátt treysta nema sem svaraði til þeirra trygginga sem Ísland gæti veitt. Því eigi að dreifa byrðunum af Icesave hruninu með sanngjarnari hætti.

Þetta eru athyglisverð sjónarmið. Ekki síst af því að þau hrjóta úr breskum penna. Og fyrir vikið verður ennþá nöturlegra að lesa þá dæmalausu uppgjöf og undirlægjuhátt sem birtist okkur á leiðarasíðu okkar útbreiddasta dagblaðs.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband