19.8.2009 | 09:47
Sporgöngufólk Jóns sterka
Forráðamenn ríkisstjórnarinnar koma fram með reglubundnum hætti til þess að tíunda afrek sín. Í gær brugðu þeir ekki vana sínum og höfðu þetta aðeins hátíðlegra í tilefni af því að ríkisstjórnin fagnar nú 100 daga starfsafmæli sínu.
Athyglisvert er að þegar ríkisstjórnin hrósar sér er það gert með skírskotun til lista nokkurs þar sem tilgreind eru all nokkur verkefni sem ætlunin er að vinna á þessum 100 dögum. Þar er þó ýmislegt heldur losaralegt og laust í böndum. Margt um fyrirheit en færra um eitthvað handfast
Það þykir til dæmis til marks um afrek að hafa lagt fram frumvörp, sem þó eru algjörlega óunnin í þinginu. Að einu og öðru hafa menn hugað, er sagt og öllu dembt svo inn í afrekaskrána miklu. Um þessa ríkisstjórn má því með sanni segja að litlu verður hún fegin. Og ósanngjarnt væri að brigsla forystumönnum hennar um hógværð eða raunsæi þegar afrekaskráin er lesin. Það verður því ekki gert. Ríkisstjórnin verður að eiga það sem hún á; með sanni og skuldlaust.
Miklu raunsærri er lýsing Árna Páls Árnasonar félagsmálaráðherra á afrekum ríkisstjórnarinnar sem sagði í orðskiptum við mig á Alþingi í síðustu viku að það væri óvissa um grunvallarforsendur í efnahagslífinu, um allar efnahagsstærðir í hagkerfinu. Það er skaði af því að þessi játning ráðherrans fékk ekki að rata inn í sjálfshólslista ríkisstjórnarinnar. Okkar hógværi félagsmálaráðherra hefði örugglega ekki fundið að því.
Það getur verið gaman að fólki sem er sæmilega ánægt með sig og líki sjálfhælið vel. En ósköp minnir slíkt á þá garpa sögunnar- og bókmenntanna sem lítt hafa verið í hávegum hafðir í gegn um tíðina og meira uppskorið hæðni en hrós. Koma þar m.a upp í hugann þeir Jón sterki úr Skugga- Sveini og Björn hvíti úr Mörk sem Njálssaga greinir frá.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook