Niðurstöðunni troðið þversum ofan í kok ríkisstjórnarinnar

IcesaveÞví má alls ekki gleyma að Samfylkingin og Steingrímsarmur Vinstri grænna vildi alls engar breytingar gera á Icesavemálinu. Þegar frumvarpið um ríkisábyrgð á Icesave, kom fyrir Alþingi læstu þessi stjórnmálaöfl saman örmum sínum til þess að verja Icesavesamninginn óbreyttan og vildu samþykkja galopna, ótakmarkaða ríkisábyrgð á öllu klabbinu; og það án þess að vita hversu sú upphæð yrði há.

Þetta rakti ég í blogg hér á dögunum.

Það voru þessi stjórnmálaöfl sem reyndu að leyna Alþingi upplýsingum. Munum að það þótti fráleitt að Alþingi sem átti þó að taka afstöðu til málsins, fengi einu sinni að sjá samninginn, sem allt þetta byggði á.

Smám saman fjaraði undan Samfylkingunni og Steingrímsarminum. Þegar þau stóðu frammi fyrir töpuðu máli breyttist tónninn. Og niðurstaðan varð síðan lögggjöf sem á ekkert sameiginlegt með upphaflegu frumvarpi þeirra Steingríms J. Sigfússonar og Jóhönnu Sigurðardóttur, nema nokkrar málfræðilegar samtengingar, á borð við og, en og eða.

Þetta skýrir auðvitað fúllyndi fjármálaráðherrans okkar við atkvæðaskýringu í lok umræðunnar. Hann hafði farið algjöra sneypuför. Hann upplifði sig réttilega sem niðurlægðan mann og allt hans hrós um afrekið með Icesavesamningnum var orðið að háði um hann sjálfan.

Frammistaða ríkisstjórnarinnar í þessu máli var vitaskuld herfileg. Stjórnin ákvað að vinna þetta mál á eigin forsendum og forklúðraði því með ferlegum hætti. Gróflega dapurleg er síðan sú eftiráskýring að málið hafi verið unnið í þverpólitískri sátt.

Sannleikurinn er bara sá að ríkisstjórnin var algjörlega flatreka í þessu máli. Hún réði ekki við það viðfangsefni sem hún var með í fanginu og hafði rekið með það upp á sker. Við þær aðstæður tóku þingmenn úr öðrum flokkum höndum saman um að lappa upp á málið, til þess að afstýra stórslysi og í þágu þjóðarhags.

Ríkisstjórnin, að Ögmundi Jónassyni frátöldum, vildi hins vegar ekki að slíkt vinnulag fengist fram. Ráðherrarnir ólmuðust hver sem betur gat gegn öllum breytingum og voru eins og hundar á roði í að verja hina kolómögulegu samningsniðurstöðu. Frumvarpið eins og það var að lokum samþykkt var sígilt dæmi um mál, sem troðið var þversum ofan í kokið á ríkistjórnarforystunni.

Icesavesamningi að hætti Jóhönnu og Steingríms var hafnað. Þau fengu engu um ráðið. Frumvarpi þeirra var hent út í hafsauga.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband