22.9.2009 | 13:10
Ríkisstjórnin þvælist fyrir
Flestir fögnuðu Stöðugleikasáttmálanum, sem var tilraun stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins til að búa til endurreisnaráætlun og efnahagsplan fyrir komandi mánuði og misseri. Ekki vantaði fagnaðarópin úr Stjórnarráðinu þegar þessi mikilvægi áfangi var í höfn. Nú þremur mánuðum eftir að hann var undirritaður tala þeir sem að honum stóðu um að hann sé í uppnámi; allir nema ríkisstjórnin okkar lánlausa, sem telur að allt gangi vel.
Þetta er auðvitað til marks um þá firringu sem ríkir í stjórnarherbúðunum. Viðvaranir launþega og atvinnulífs ná greinilega ekki inn í fílabeinsturninn við Lækjartorg. Þar eru allir svo sælir og glaðir við að telja ála í ám landsins og meta grassprettu í 800 metra hæð ofan sjávarmáls.
En hvað er það sem menn telja að úrskeiðis hafi farið hjá ríkisstjórninni við framkvæmd Stöðugleikasáttmálans? Fljótlegra væri kannski að telja það upp sem enn má telja í lagi og snýr að því sem telja má á ábyrgð ríkisvaldsins.
Nefnum fyrst málefni heimilanna. Það vita allir að það mál var lagt til hliðar fyrir ESB málum, Icesave og gæluverkefnum ráðherranna. Núna fyrst þegar pólitíski þrýstingurinn er orðinn óbærilegur er farið að huga að þeim. Þessi vinnubrögð gagnrýna meðal annars launþegasamtökin harðlega. Ríkisstjórnin þrætir og sýnir þar með virðingarleysi sitt gagnvart almenningi í landinu.
Víkjum svo að vöxtunum. Forsætisráðherra sagði í júní að þeir ættu að lækka og kalla mætti saman aukafund peningamálastefnunefndar Seðlabankans til þess arna. Enginn hlustaði á ráðherrann. Síðan hefur nefndin komið þrisvar saman og ekki hreyft við vöxtunum. Enginn býst við því að þeir lækki á næstunni. Þó var um það rætt í Stöðugleikasáttmálanum að vextir skyldu komnir niður í eins stafs tölu um þeta leyti.
Svo átti að spýta í atvinnusköpunina með kröftugum stórframkvæmdum í samgöngumálum, orku og iðnaðarmálum. Þar er veruleikinn sá að ráðherrarnir svara ekki einu sinni spurningum fyrirtækja sem vilja framkvæma, sbr. Spöl og þvælast fyrir öllum orku og iðnaðarframkvæmdum eins og þeir lifandi geta .
Vandi Stöðugleikasáttmálans er þess vegna fólginn í ríkisstjórninni. Hún veldur óstöðugleika, með stórfurðulegri forgangsröðun og aðgerðaleysi í bland. Þegar hún á að stuðla að stöðugleika ruggar hún bátnum, þegar hún á að greiða fyrir málum flækist hún fyrir. Ríkisstjórnin er þess vegna vandamálið.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook