9.10.2009 | 08:41
Ekki er hægt að skaða það sem er ekki til
David Carey sem er sérfræðingur hjá Efnahgs og framfarastofnuninni OECD, hefur misskilið eitthvað þegar hann tjáir sig um efnahagsmálin, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og ríkisstjórnina. Sérfræðingurinn varar við því að við hættum samstarfi við sjóðinn, sem er efnislegt sjónarmið sjónarmið í sjálfu sér. En honum skýst að öðru leyti, þótt skýr sé.
Carey segir að slík ákvörðun myndi skaða trúverðugleika ríkisstjórnarinnar og tiltrú á að henni takist að koma efnahag landsins á réttan kjöl, eins og eftir honum er haft í fréttum Ríkisútvarpsins.
Ekki gengur þetta upp. Einfaldlega vegna þess að tiltrú ríkisstjórnarinnar er engin. Það er því ekki hægt að skaða það sem er ekki til. Og hér með er auglýst eftir einhverjum þeim sem hefur trú á því að henni takist að koma efnahag okkar á réttan kjöl. Sú auglýsing mun engan árangur bera, því hver segir það nema í gríni að ríkisstjórnin sé líkleg til afreka á efnahagssviðinu?
Ríkisstjórnin hefur komið fram með fjárlagafrumvarp sem helst mun leiða til þess að ofurbyrðar eru lagðar á landsmenn, atvinnulífið sligað, fæti brugðið fyrir alla viðleitni til atvinnuuppbyggingar, níðst sérstaklega á landsbyggðinni og skellt fram fyrirætlunum um skattahækkanir og nýja skattheimtu, sem ráðherrar vita ekki um en allir sjá að eru gjörsamlega óraunhæfar.
Ríkisstjórnin hefur klifað á því lungann úr árinu að uppbygging bankakerfisins sé á næsta leyti. Ekkert gerist. Ríkisstjórnin gerir Stöðugleikasáttmála við launafólkið og atvinnulífið og svíkur hann svo í hvert skipti sem hún kemur því við. Ríkisstjórnin gengur frá samningum um Icesave sem eru svo lélegir að hún er gerð afturreka. Ríkisstjórnin sinnir ekki þeirri frumskyldu sinni að koma til móts við almenning og fjölskyldurnar í landinu. Ríkisstjórnin kærir sig kollótta um þó að atvinnulífið riði til falls og heilar atvinnugreinar séu að hruni komnar.
Síðast en ekki síst er ríkisstjórnin óstarfhæf vegna innbyrðis sundurlyndis og logar nú stafnana á milli. Þessa dagana snúast allar hennar aðgerðir og ákvarðanir um að tryggja að líf hennar framlengist, hvað sem það kostar. Hagsmunir ríkisstjórnarinnar róa í fyrirrúmi, en allt annað rekur á reiðanum.
Það er þess vegna ekki hægt að skaða trúverðugleika ríkisstjórnarinnar af því að hann er ekki fyrir hendi. Ekki er heldur hægt að veikja tiltrú manna á að henni takist að koma efnahag okkar á réttan kjöl, því slík tiltrú fyrirfinnst hvergi. Ekki einu sinni lengur í kolli ráðherranna.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook