10.10.2009 | 17:19
Hvorttveggja er jafn slæmt; verk og verkleysi ríkisstjórnarinnar
Vandinn við ríkisstjórnina er tvenns konar. Annars vegar það að aðgerðarleysi hennar er að bitna harkalega á fólki og fyrirtækjum. Hins vegar virðist hún hafa eitthvað sérstakt lag á því að skapa vandræði og koma öllu til verri vegar þegar hún sýnir lífsmark. Það er því vandséð hvort er verra verk hennar eða aðgerðarleysið.
Fjármálaráðherra afsakaði óútfært fjárlagafrumvarp með því að menn hefðu verið svo uppteknir í stjórnsýslunni við önnur verk að ekki hefði unnist tími til þess að ganga almennilega frá ýmsum endum fjárlagafrumvarpsins.
Þetta er ábyggilega rétt. Stjórnsýslan hefur til dæmis meira og minna verið á hvolfi í spurningaleik við ESB. Þar er verið að framleiða mörg hundruð blaðsíðna doðranta í hverju ráðuneyti með svörum handa Brussel. Síðan hefur ríkisstjórnin verið upptekinn með allt sitt starfsfólk við alls konar önnur mál, sem ekkert liggur á.
Ríkisstjórnin er maklega sökuð um aðgerðarleysi þegar kemur að þeim málum sem almenning og atvinnulífið varðar mestu.
Félagsmálaráðherrann kynnir tillögur til hagsbóta fyrir heimilin í landinu, sem hann sinnti ekkert um fyrr en nú seint í haust. Þar með fór dýrmætur tími og þar með hrundu óþarfa erfiðleikar yfir fjölskyldurnar í landinu vegna þess að forgangsröðunin var ekki í þágu heimilanna. Þannig birtist sem sé pólitísk stefnumótun. Það voru aðrir hlutir sem gengu fyrir. Flóknara er það ekki og ekkert þýðir fyrir ráðherra að þræta fyrir það.
Þetta gildir um verkleysi ríkisstjórnarinnar.
En svo kastar nú fyrst tólfunum þegar ríkisstjórnin gengur til verka. Þar er eins og allt gangi út á að búa til flækjustig og þvælast fyrir, til að mynda þegar kemur að atvinnumálunum.
Eða er hægt að nefna eitthvað sérstakt sem gert hefur verið til þess að greiða fyrir atvinnuuppbyggingu af hálfu ríkisstjórnarinnar?
Það er kallað eftir erlendri fjárfestingu. Launþegum og vinnuveitendum heitið að ekki verði lagðir steinar í götu slíks. En hvað gerist? Ríkisstjórnin leggur ekki bara stein í götu atvinnuuppbyggingarinnar, heldur kemur af stað hreinni grjótskriðu til þess að þvælast fyrir. Og Skattmann sjálfur hótar ofurskattheimtu sem er á góðri leið með að hrekja burtu alla þá atvinnustarfsemi sem byggir á orkunotkuninni.
Það þarf einstaka hæfileika að geta í senn með aðgerðum og aðgerðarleysi bakað svona mikið tjón. Að þessu leyti stendur ekkert ríkisstjórninni samjöfnuð. Hún er að þessu leyti alveg einstök.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook