15.10.2009 | 13:45
Virkjun hugarafls og mannauðs
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi menntamálaráðherra fjallar um háskólamálin á Vestfjörðum í dálkinum Önnur sjónarmið hér á síðunni. Þar rekur hún meðal annars tilurðina að stofnun Háskólasetursins á Vestfjörðum og fjallar almennt um starfsemi þess. Í grein hennar segir meðal annars:
"Í mars árið 2005 var Háskólasetur Vestfjarða formlega stofnað en stofnfélagar eru meðal annars allir háskólar landsins. Í því felst bæði styrkur og tækifæri. Hugsunin var fyrst og fremst að bæta aðgengi Vestfirðinga að háskólanámi og nýta styrkleika svæðisins til rannsóknar og þróunar á ákveðnum sviðum. Lengi vel voru háværar raddir um að stofna þyrfti sérstakan háskóla, þær raddir voru skiljanlegar en fyrst og fremst voru þær ákall um að styrkja innviði vestfirsks samfélags sem hefur átt á brattann að sækja. Metnaður og raunsæi flestra lá í því að koma háskólastarfsemi af stað sem raunverulega gæti fest rætur. Það er að gerast, hægt og sígandi en markvisst hefur Háskólasetur Vestfjarða fest sig í sessi. Þótt einhverjar úrtöluraddir hafi heyrst að sunnan og einnig meðal þeirra sem eru sérfræðingar í yfirboðum hvers konar og lýðskrumi, þá voru menn innan þess tíma ríkisstjórnar sammála um mikilvægi þess að taka ákvörðun um að fara af stað í verkefnið á grundvelli raunsæis, faglegrar þekkingar og metnaðar. Um þetta náðist gott samkomulag og einstök samvinna var við bæjaryfirvöld á Ísafirði."
Greininni lýkur Þorgerður katrín með þessum orðum:
"Ef svigrúm fæst munu fleiri tækifæri gefast fyrir Vestan. Við skulum forðast að draga úr þeim krafti sem þegar er farinn af stað í gegnum Háskólasetur Vestfjarða. Þótt ríkisstjórnin sjái virkjunum allt til foráttu er óskandi að hún leyfi þeirri virkjun hugarafls og mannsauðs að njóta sín áfram í gegnum skynsama uppbyggingu á háskólastarfsemi á Vestfjörðum.
Möguleikarnir eru margir. Við vitum af viskunni fyrir Vestan. Nýtum hana."
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook