Allt í fullkomnu skralli

Allt í skralliRíkisstjórnin virðist vera þannig náttúruð, sem er óvenjulegt, að það er sama hvort hún gerir ekkert eða aðhefst eiithvað; hún er alltaf til vandræða. Þannig er það með stöðugleikasáttmálann og aðkomu ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin virðist allt gera sem er í hennar valdi til þess að svíkja hann. Ýmist með aðgerðum eða aðgerðarleysi sínu. Vinnuveitendur og launþegar reyna sitt ítrasta til þess að bjarga stöðugleikasáttmálanum.

Sumir ráðherrarnir sjá það helst til ráða að rífa bara kjaft. Nægir þar að nefna félagsmála og umhverfisráðherann í því sambandi. En forsætisráðherra og fjármálaráðherra láta sem ekkert sé, allt sé í himna lagi. Þau eru sem sé annað hvort í fullkominni afneitun, eða svona hrikalega forhert.

Það er eiginlega allt í fullkomnu skralli þegar kemur að hlut ríkisstjórnarinnar. Nefnum dæmin:

1. Það er ágreiningur um skattamálin og ofurskattheimtuleiðir ríkisstjórnarinnar.

2. Það er ekki búið að ljúka málum sem snúa að aðgerðum vegna stöðu heimilanna.

3. Ríkisstjórnin þarf að hætta að þvælast fyrrir uppbyggingu í orkufrekum iðnaði og stóriðju.

4. Vanhugsaðir orkuskattar sem ríkisstjórnin boðar hleypir öllu í fár þegar kemur að erlendri fjárfestingu í stóriðju.

5. Ríkisstjórnin dregur lappirnar í viðræðum við lífeyrissjóðina um þátttöku þeirra í fjárfestingu vegna samgöngumála.

6. Ríkisstjórnin slær úr og í varðandi gjaldeyrishöftin. Þau eru greinilega að þvælast fyrir og ná ekki yfirlýstum tilgangi. Það er því eðlilegt að hraða afnámi þeirra.

7. Ríkisstjórnin hefur leikið tóma blekkingarleiki þegar kemur að vaxtamálum, eins og hér hefur verið skrifað um. Stýrivextina þarf að lækka. Ekkert bólar á því og fram undir þetta hafa menn rætt um hækkun þeirra.

8. Þetta eru sjö dæmi; sjö grundvallaratriði um það hvernig ríkisstjórnin svíkur sáttmálann sem hún er sjálf aðili að. Slíkum stjórnvöldum er ekki hægt að treysta.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband