4.11.2009 | 10:00
McDonalds á ríkisstjórnarfundum?
Það breyttist allt við hrunið segja menn. Ekkert verður sem fyrr. Og sjálfsagt er mikið til í því. En eitt hefur þó ekki breyst. Skammdegisumræðan er söm við sig. Skemmtileg mál grípa hugi manna og við liggur að þau ryðji stórmálunum út úr sálartetri þjóðarsálarinnar.
Að því leyti má kannski segja að nú sé að minnsta kosti sumt að komast í sama horf. Kannski erum við að byrja að jafna okkur á áfallinu. En líklegra er einfaldlega, að það sé að koma á daginn, að lífið sé þrátt fyrir allt svo margbreytilegt, að jafnvel kreppa og hrun megni ekki að skyggja á það í fjölbreytileika sínum.
Þetta sjáum við á umræðunni sem hefur tekið flest annað yfir. Menn fóru í smalamennsku vestur í Tálknanum, til þess að sækja fé sem þar hafði gengið sjálfala um árabil. Og sjá. Þetta atvik tók þjóðina líkt og heljartökum og sagt er að bloggheimar hafi logað. Það eru skrifaðar greinar í blöðin og heilu útvarpsþættirnir eru undirlagðir af frásögnum af þessari smalamennsku fyrir vestan.
Þar undrast menn þó ekki síst að þetta sé helst talið fréttnæmt af öllu því sem gerist í byggðunum fyrir vestan. Það eru ekki sagðar fréttir af afrekum í lífi og starfi fólksins. Varla er tæpt á stundar- ósigrunum sem við erum að bíða í einu stærsta hagsmunamáli byggðanna þar, vegagerð um Vestfjarðaveg. En smalamennska í Tálkna, já?
Meira að segja ríkisstjórnin tekur þetta á dagskrá sína. Segir þó fátt af ráðum hennar í þessu máli frekar en öðrum.
Hitt málið er lokun skyndibitastaðar eins, McDonalds, sem kendur er við ameríska bræður frá síðustu öld. Það hefur verið afskaplega áhugavert að sjá umræðuna og þær heitu tilfinningar sem hafa brotist fram. Er lokun keðjunnar þó fyrst og fremst að sýna að krónan okkar gerir sitt gagn. Útlend aðföng eru orðin dýr, menn eru ekki samkeppnishæfir hér á þessum markaði nema að nota íslenskra framleiðsluvöru. Fyrir vikið dregur úr umsvifum þeirra sem skaffað hafa kjöt, kartöflur, brauð og grænmeti frá útlöndum. Það dregur sem sagt úr vinnu í útlöndum sem þessu nemur. En hún vex á Íslandi að sama skapi. Flóknara er það ekki.
En menn hafa taugar neikvæðar og jákvæðar til skyndibitastaðar gömlu amerísku bræðranna. Sveitir fólks ( svo ég noti, sem oft áður, orðalag frá Bessastöðum) út um víða veröld komast í strítt andlegt ástand við það eitt að hugsa um þessa miklu stofnun McDonalds. Það er því ekki að undra að hér heima á Fróni rofni umræðuflóðgáttirnar við önnur eins tíðindi og að komið sé að þessum miklu kaflaskilum í lífi þjóðarinnar. McDonalds tímabilinu í sögu Íslands sé lokið amk í bili.
Einni spurningu er þó ósvarað. Skyldi þetta líka hafa verið rætt á ríkisstjórnarfundi?
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook