5.11.2009 | 15:22
Störf MEÐ staðsetningu
Á síðasta kjörtímabili var reynt að leggja grunn að því sem kallað hefur verið störf án staðsetningar. Sú hugmynd gengur út á að ráðuneyti og stofnanir skilgreini störf sem vinna megi í raun hvar sem er, með tilstyrk nútíma tækni. Þegar slík störf losni skuli þau auglýst og fólki boðið að vinna þau utan stofnana, eða að minnsta kosti utan aðalstarfsstöðvanna. Að þessu var unnið vendilega á þeim tíma.
En hvað svo?
Því svaraði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra á Alþingi í gær. Og hvað kom í ljós?
Jú. Á daginn kom að lítið sem ekkert hefði gerst. Núverandi ríkisstjórn hafði greinilega sett þetta mál aftarlega í sína goggunarröð. Þessari tilraun til atvinnusköpunar á landsbyggðinni hafði bersýnilega ekkert verið sinnt af viti og árangurinn í samræmi við það. Lítið hafði sem sé verið gert með það sem við höfðum undirbúið á síðasta kjörtímabili undir ágætri verkstjórn þáverandi iðnaðarráðherra Össurar Skarphéðinssonar.
Ég benti hins vegar á að ríkisstjórnin ynni núna hörðum höndum að öðru verkefni. Starf með staðsetningu. Þar vísaði ég til þess að í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar og með frumvörpum sem nú berast sem óðast inn í þingið, er mótuð skýr stefna gagnvart landsbyggðinni og hún heldur fjandsamlegri.
Þessi stefnumörkun er öll sama markinu brennd. Undir blekkingar yfirskyni hagræðingar er verið að sameina stofnanir, færa verkefnin suður og eyðileggja þann árangur sem þrátt fyrir allt hefur þó náðst í því að auka hlut opinberra starfa utan höfuðborgarsvæðisins. Í stað starfa án staðsetningar er mottóið störf með staðsetningu og staðsetningin er utan landsbyggðarinnar.
Varla líður sá dagur að ekki glitti í þessa áráttu ríkisstjórnarinnar, sem hefur fengið umboð frá þingmönnum sínum til athæfisins. Og gráleit eru örlögin, því einmitt daginn áður en forsætisráðherra svaraði spurningunni um störf án staðsetningar, ræddum við þingmenn um frumvarp sem felur í sér hreina atlögu að því vel heppnaða fyrirkomulagi héraðsdómstóla sem við lýði hefur verið í hálfan annan áratug.
Þar er yfirskynið hagræðing og sparnaður. En við bentum mörg hver á að af þessu myndi enginn sparnaður hljótast og hagræðingu sem stefnt sé að mætti vel ná með öðrum leiðum.
Nú verður fróðlegt að sjá hvort þessi áform og önnur álíka gangi eftir. Það mun ráðast af því hvort þingmenn stjórnarliðsins af landsbyggðinni gangi þennan ógæfuveg með ríkisstjórninni sem þeir veita stuðning.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook