10.11.2009 | 12:21
Þingmeirihlutinn situr á brýnu hagsmunamáli
Það hafa birst tvær greinar á bloggsíðum nú nýverið, um nauðsyn þess að styrkja stöðu minni hluthafa í fyrirtækjum. Í báðum þessum færslum er kallað eftir því að lagaumgjörðin sé styrkt í þessu skyni. Höfundar þessara greina eru annars vegar Jón Steinsson hagfræðingur og hins vegar Egill Helgason - Silfur Egils. Þeir hafa á réttu að standa. Það er knýjandi nauðsyn að taka á þessum málum.
Ríkisstjórnin á næsta leik. En hún er skeytingarlaus. Fyrir þinginu liggur þingsályktunartillaga sem ég er fyrsti flutningsmaður að og hefur þetta að markmiði; að styrkja stöðu minni hluthafa. Hún fæst ekki afgreidd úr þingnefnd. Ríkisstjórnarflokkarnir, sem á stjórnarandstöðuskeiði sínu þóttust vilja styrkja stöðu þingsins og taka málefnalega á þingmálum stjórnarandstöðunnar, koma í veg fyrir að þessi tillaga fáist afgreidd. Þeir sýna þannig hug sinn í verki.
Ég hafði frumkvæði að því á sínum tíma að flytja frumvörp sem höfðu þann yfirllýsta tilgang að styrkja stöðu litlu hluthafanna. Ekki hafði ég þá árangur sem erfiði. Frumvörpin urðu ekki að lögum, en umræðan sem þau sköpuðu, hafði örugglega sitt að segja um að sitthvað var aðhafst til bóta.
Og með mér á þessu máli voru engir aukvisar. Meðflutningsmenn mínir voru þingmennirnir, Halldór Blöndal, Jóhanna Sigurðardóttir,Hjálmar Árnason, Steingrímur J. Sigfússon, Guðjón A. Kristjánsson. Sem sagt forseti Alþingis, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, tveir þáverandi flokksformenn og einn sem varð flokksformaður síðar. Tveir þessara þingmanna sitja nú í ríkisstjórn og eru forsætis og fjármálaráðherrar. Í þingsályktunartillögunni er einmitt vísað í þessi frumvörp og þau fylgja með sem fylgiskjal.
Þó þessi mál hafi ekki á sínum tíma ratað í heila höfn kostaði ég kapps um að fylgja málinu eftir; einfaldlega af því að hagsmunir almennings eru svo augljósir í svona málum. Í sem skemmstu máli; það er varla til það heimili sem ekki á eða hefur átt hlutabréf í meira eða minna mæli. Það eru hagsmunir slíks fólks sem voru fyrir borð bornir, það blasir við öllum eftir hrunið og ég óttaðist það einmitt að á því væri hætta og það varð kveikjan að málatilbúnaði mínum.
Vonandi verða þessar umræður núna til þess að Alþingi afgreiði málið í þetta sinn, eða að hugað verði betur að hagsmunum minni hluthafa. Það er mikilvægt og er brýnt hagsmunamál almennings í landinu.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook