Svört lýsing Seðlabankans á veruleika ríkisstjórnarinnar

SeðlabankinnRíkisstjórnin lætur sem hún sé að ná tökum á verkefni sínu. Ekkert er jafn víðs fjarri. Ríkisstjórnin er í gíslingu græningjahluta stjórnarliðanna og þvælist fyrir allri uppbyggingu sem mest hún má. Það er að verða okkur dýrkeypt. Því eins og Seðlabankinn bendir á munu þessar tafir valda því  að hagvöxtur verði minni, atvinnuleysi meira, efnahagsbatinn verði seinna á ferðinni, gengi krónunnar veikara og lífskjörin verri.  Þetta er skuggaleg lýsing á því sem nú er að eiga sér stað, með fullri ábyrgð Samfylkingar og Vinstri grænna.

Þó svo að lágt gengi sé að hjálpa útflutningsgreinum og stuðli að skarpara jafnvægi í viðskiptum okkar við útlönd hefur það á sér skuggahliðar. Flestir eru þess vegna sammála um að við þurfum að sjá gengið styrkjast. Það getur vel gerst án þess að það valdi búsifjum útflutningsgreina. Þær þola sterkara gengi  frá því sem nú er.

Enda blasir við að gengi krónunnar er langt fyrir neðan jafnvægisgengið.  Gengisvísitalan er óðum að nálgast 240. Þegar það var sterkast var gengisvísitalan um 100. Það var hins vegar fáránlega sterkt gengi. Fyrir því var engin innistæða. Gjaldeyririnn var á útsölu og útflutningsgreinarnar blæddu. Milljarðatugirnir runnu út úr útflutnings og samkeppnisgreinum. Það var því eins konar auðlindaskattur á sjávarútveg af verstu sort, svo dæmi sé tekið.

Hins vegar segir Seðlabankinn okkur að ekki sé tilefni til bjartsýni. Í nýju mati Seðlabankans kemur fram það mat bankans að krónan verði veikari en áður var talið, svo langt sem augað eygir. Bankinn endurskoðaði nokkurra mánaða gamla spá sína og er svartsýnni á styrkingu krónunnar.

Talið var að evran, sem nú er  186 króna verði rúmlega 170 krónur að jafnaði á þessu ári; munum að krónan var mun sterkari fyrr á þessu ári. Spáin er sú að krónan verði enn veikari á næsta ári, eða 176 krónur og styrkist örlítið árið 2011 og ögn til viðbótar árið 2012.

Allt er þetta mikilli óvissu háð. Og meðal annars vegna þess að enginn veit í hvaða átt ríkisstjórnin muni stefna. Seðlabankinn segir að ef stóriðjuframkvæmdir frestist, aukist atvinnuleysi og gengið lækki. Gangi það eftir lítur dæmið enn ver út en í spá bankans.

Þetta er hins vegar veruleikinn sem græningjastefna ríkisstjórnarinnar er að kalla yfir okkur. Lægra gengi, minni hagvöxtur og meira atvinnuleysi. Það er framtíðarsýnin sem ríkisstjórnin býður upp á.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband