17.11.2009 | 16:22
Statistahlutverk í skrautsýningunni
Efnahags og skattanefnd Alþingis hefur sagt álit sitt á Icesavemáli ríkisstjórnarinar. Um það mál eru stjórnarflokkarnir út og suður og telja það til sérstaks styrkleika fyrir lýðræðið, málið sjálft og stjórnmálin almennt. Þetta segja þeir þó það blasi við að í þessu máli séu þeir einfaldlega ósammála og það sé af þeim ástæðum sem þeir tali ekki einni röddu. Í skattamálunum gengur maður undir manns hönd að slípa burtu misfellurnar á skoðunum manna. Þá er hins vegar minna talað um að pólitískur ágreiningur sé sérstakt hraustleikamerki fyrir stjórnarsamstarfið.
Ögmundur Jónasson og Lilja Mósesdóttir skrifuðu nefndarálit um Icesavemálið sem fulltrúar í Efnahags og skattanefnd. Þetta átti að vera innlegg í vinnu Fjárlaganefndar Alþingis sem er með málið á sínu forræði. Skemmst er frá því að segja að meirihluti VG og Samfylkingar hirti ekkert um skoðanir þeirra Ögmundar og Lilju. Tók innlegg þeirra ekki einu sinni til umfjöllunar og lýsti þannig frati á framlag þingmannanna tveggja.
Þetta heitir niðurlæging á manna máli. Í umræðum okkar Ögmundar Jónassonar á Alþingi í dag, kom ekki annað fram en að hann yndi þessu vel. Þeim Lilju er ætlað statistahlutverk í skrautsýningu ríkisstjórnarinnar og hafa greinilega yfir engu að kvarta undan þessu dapurlega hlutskipti.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook