19.11.2009 | 16:37
Hann ætti að hafa áhyggjur af áhyggjuleysi sínu
Orðheppinn vinur minn sagðist einu sinni hafa helst áhyggjur af því hversu áhyggjulaus hann væri. Þetta var á alvörutímum og hann var að svara spurningum um hvort hann hefði ekki áhyggjur af stöðu mála og framtíðinni. Miðað við þá alvarlegu stöðu sem margir húsnæðiseigendur eru í núna, var þessi vinur minn bara að fást við smámál. Og örugglega hefði hann orðið áhyggjufullur í sæti félagsmálaráðherra við þessar grafalvarlegu aðstæður.
En okkar félagsmálaráðherra er eins og hann vinur minn forðum. Áhyggjulaus vegna ástandsins. Og er að því leytinu ennþá bágari; hann hefur ekki einsu sinni áhyggjur af áhyggjuleysi sínu.
Í morgun spurðu tveir þingmenn hann út í afleita stöðu húsnæðismarkaðarins á Alþingi. Guðlaugur Þór Þórðarson og Guðmundur Steingrímsson vildu heyra sjónarmið ábyrgðarmanns húsnæðismálanna í Stjórnarráðinu. Ráðherrann svaraði ýmist með gömlu og margnýttu frösunum sínum um vonsku stjórnvalda ( gleymdi vitaskuld flokki sínum) og síðan með óljósum fyrirheitum.
Þetta rifjaði upp fyrir mér svar ráðherrans við spurningu minni um háa vexti og sligandi íbúðalán einhvern tíma í haust..Ráðherrann áhyggjulausi svaraði með tómu kjaftbrúki og sýndi tómlæti sitt gagnvart alvarlegri stöðu íbúðaeigenda, einkanlega unga fólkinu í verki.
Það er kominn tími til þess að félagsmálaráðherrann geri eins og hann vinur minn; fari að hafa áhyggjur af áhyggjuleysi sínu.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook