30.11.2009 | 09:08
Sannkölluð gleðistund
Hátíðleikinn, gleðin, feginleikinn og tilhlökkunin sem einkenndi Bolungarvík sl. laugardag, hæfði tilefninu. Við vorum saman komin til að fagna því að búið var að slá í gegn. Bolungarvíkurjarðgöng orðin að veruleika. Nú tekur við alls konar frágangsvinna. Loftræstikerfi, rafmagnsverkefni, fjarskipti og annað það sem þarf til að gera nýju jarðgöngin klár. Svo verða þau tekin í notkun um og eftir mitt næsta ár.
Þetta hefur gengið ótrúlega vel. Ákvörðunin um að ráðast í jarðgöngin, var tekin 27. september 2005 á ríkisstjórnarfundi; þeim fyrsta sem ég sat, þá nýorðinn sjávarútvegsráðherra. Ég hafði á orði í ræðu sem ég flutti á mannfagnaðinum í íþróttahúsinu í Bolungarvík að varla væri hægt að fara fram á betri viðtökur á nýjum starfsvettvangi.
Ég minnist þess frá þessum degi hve margir urðu til að samfagna okkur eftir að ákvörðunin hafði verið tekin. Ótal smáskilaboð bárust mér í símann, tölvupóstar streymdu inn og símhringingar, jafnt frá vinum og frá fólki sem ég þekkti lítt til. Og loks stoppaði mig bláókunnugt fólk úti á götu næstu daga og vikur á eftir sem tók í hendina á mér og samfagnaði. Það leyndi sér ekki að fólki fannst þetta verðskulduð framkvæmd. Mér þótti vænt um þessi viðbrögð
Nú horfum við fram á veginn. Það munu opnast gríðarlega mörg ný tækifæri í byggðalegu tilliti. Við höfum reynsluna af Vestfjarðagöngum sem sýndu gildi sitt strax á fyrsta degi. Þannig verður það einnig núna. Þetta er ómetanleg framkvæmd, sem við íbúar á svæðinu sem best munum njóta hennar erum ákaflega þakklát fyrir öllum þeim sem að þessu verki komu, jafnt á ákvarðanastigi og framkvæmdastigi.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook