Matsfyrirtækin treysta ekki ríkisstjórninni

Moody´sSkörin hefur færst all myndarlega upp í bekkinn þegar ráðherrar segja frá því að erlendu matsfyrirtækin treysti ekki ríkisstjórninni. Sjálfsagt er þetta einsdæmi, en einsdæmin eru núna að verða daglegt brauð í starfsháttum ríkisstjórnarinnr, svo mótsagnakennt sem það hljómar. Vinnubrögðin og ákvarðanirnar eru nefnilega þannig að hvorugt á sér ekki fordæmi.

Þegar fjármálaráðherra segir að afgreiðslan á Icesave sé mikilvæg, ella sé hætta á að matsfyrirtækin flokki okkur í ruslflokk, þá er hann að segja að þessi fyrirtæki treysti ekki ríkisstjórninni.

Það er ríkisstjórnin sem gerði Icesave samningana. Bæði þann fyrri og einnig hinn síðari. Þegar ríkisstjórnir gera slíka samninga er það undantekningarlaust gert í trausti þess að samningasaðilarnir geti staðið við sinn hluta. Það gat ríkisstjórn Íslands ekki í sumar. Hún var gerð afturreka með hinn illræmda Icesavesamning. Nú gerir hún aðra tilraun til þess að koma óbermi sínu í gegn.

Málið er algjörlega á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Það þýðir ekkert fyrir ráðherrana að skýla sér á bak við andstöðu stjórnarandstöðunnar. Annað hvort er þingmeirihluti á bak við málið eður ei. Því verður tæplega trúað að ríkisstjórnin geri samninga í tvígang um sama málið án þess að hafa til þess stuðning meirihluta þingsins. Það væri skandall af verstu sort ef svo væri.

En af orðum fjármálaráðherra má ráða að matsfyritækin treysti ekki ríkisstjórninni. Hún hafi hvorki sannfært þau né aðra um að þau hafi vald á þessu máli. Það kemur okkur Íslendingum ekki á óvart að ríkisstjórninni sé vantreyst. Það blasir við og hún á það skilið. En hitt sætir meiri tíðindum, að forysta ríkisstjórnarinnar sé farin að segja frá því, að þar sem mest ríður á erlendis, sé ríkisstjórninni vantreyst.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband