2.12.2009 | 11:49
Höggvið aftur í sama knérunn
Ríkisstjórninni eru mislagðar hendur á ótrúlega mörgum sviðum. Beint ofan í gríðarlega þröngar aðstæður verktakafyrirtækja leggur ríkisstjórnin af stað með hugmyndir um skattahækkanir sem sérstaklega koma illa niður á þessari atvinnugrein. Þetta er kallað að hvöggva tvisvar í sama knérunn og er í þessu sambandi alveg makalaust tiltæki.
Alveg frá síðasta ári hafa fyrirtæki í jarðvegsvinnu verið að fækka starfsfólki. Lítil fyrirtæki á þessu sviði hafa mörg hver einfaldlega lagt up laupana, án þess að það hafi vakið athygli fjölmiðla. Stærri fyrirtækin hafa sagt upp fólki. Ekki er óalgengt að fyrirtækin - sem enn eru starfandi - séu með þriðjung eða fjórðung þess starfsfólks sem þau höfðu fyrir ári og ríflega það.
Hið ágæta fyrirtæki KNH á Vestfjörðum sem hefur staðið sig frábærlega vel í verkum sínum sagði á dögunum upp fjölda starfsmanna og það ekki að ástæðulausu. Er þetta fyrirtæki þó með tiltölulega góða verkefnastöðu. Það varð því hið síðasta í röð margra fyrirtækja í sömu grein sem grípur til þessa óhjákvæmilega úrræðis.
Gáum að því að fyrirtæki sem ekki eru þegar með samningsbundin verkefni á vegum ríkisins fram á næsta ár, geta ekki vænst þess að hafa nokkuð fyrir sig að leggja úr verkefnum frá ríkinu. Einfaldlega vegna þess að engra nýrra útboða er að vænta til dæmis á sviði vegagerðar. Dæmi eru um stór fyrirtæki sem ekki hafa fengið nein ný verkefni til að vinna úr á þessu ári.
Framundan er óvissan ein og vonleysið býr um sig. V iðbrögð ráðamanna eru á þann veg að ekki er stefnubreytingar að vænta. Svarið við erfiðri stöðu þessarar atvinnugreinar er af hálfu ríksistjórnarinnar og stjórnarliða að áfram skuli menn búast við hinu sama. Og til viðbótar verði síðan efnt í stórkarlalega skattlagningu, sem mun bitna sérstaklega á þessari atvinnugrein, sem þó hefur þurft að glíma við hreint hrun á tekjum.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook