Daglegar morgunheimsóknir stjórnarliða

ÞingsalurNý hefð hefur nú myndast í þingstörfunum. Stjórnarliðar fara í daglegar morgunheimsóknir í þingsali. Ekki til þess að búa sig undir að ræða um eitt stærsta hagsmunamál Íslands, Icesavemálið. Nei. Erindið er að greiða atkvæði til þess að tryggja að haldnir verði kvöldfundir.

Segir svo fátt af þeim, eftir það.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og formaður VG kallaði það eitt sinn að menn væru eins og atkvæðavélar, sem sætu samviskusamlega við atkvæðagreiðslutakkana sína og hlýddu, en forðuðust að taka þátt í málefnalegri umræðu. Þessi orðaleppur ráðherrans smellpassar við félaga hans í hópi stjórnarliða.

Við höfum ítrrekað kallað eftir því að stjórnarliðar kæmu til umræðunnar. Við höfum sagt að það sé hluti af lýðræðislegri umræðu að stjórn og stjórnarliðar geti skipst á skoðunum um ágreiningsmál. Ef ekki er tilefni til þess að stjórn og stjórnarandstaða ræði um þetta ágreiningsmál - mál af þessari stærðargráðu þá hvenær eiginlega?

En til þess hefur nánast ekki komið. Það er eins og stjórnarliðar treysti sér ekki í þessa umræðu; þori ekki. Og þeim er vorkunn. Það þarf sterkan skammt af kjarki og forherðingu til að verja þennan samning. Þess vegna gera þeir það ekki. Þögnin er mestan part þeirra helsta framlag til umræðunnar.

Nú þarf forsætisnefnd Alþingis að velta því fyrir sér hvort ekki eigi beinlínis að gera ráð fyrir þessum dagskrárlið í þingsköpum, daglegar morgunheimsóknir stjórnarliða.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband