8.12.2009 | 17:07
Ég segi því nei !
Það fjölgaði dálítið í hópi stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar í þinghúsinu í dag við Icesave afgreiðsluna. Þar voru mættir í hliðarsali, spunameistararnir úr Samfylkingunni, sem alltaf eru álengdar, þegar mikið liggur við og hugsjónamál Samfylkingarinnar, ESB og Icesave eru til umræðu. Þarna voru amk. mættir Hrannar B. Arnarson aðstoðarmaður forsætisráðherra og Einar Karl Haraldsson. Þeir félagar munu fá það hlutverk að setja óhæfuverk ríkisstjórnarinnar í Icesvemálinu í sem þekkilegastan búning, rétt eins og spunameistara er hlutverkið.
Forysta ríkisstjórnarinnar hafði greinilega unnið vinnuna sína fyrir þessa atkvæðagreiðslu eins og við var að búast. Útilokað hefði það verið að ríkisstjórnin hefði verið í minnihluta með þetta Icesave-mál, eins og hún var í sumar með hið fyrra. Tveir og þrír þingmenn stjórnarliða fóru þó gegn frumvarpsgreinunum, en Þráinn Bertelsson, upphaflega úr Borgarhreyfingunni, slefaði síðustu grein frumvarpsins að landi með stjórnarþingmönnum.
Ég gerði grein fyrir atkvæði mínu við afgreiðslu um fyrstu grein frumvarpsins með þessum orðum:
Það hefur aðeins ein ríkisstjórn gert samninga um meintar Icesave skuldbindingar. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Sá samningur var brot á Brusselviðmiðunum; alvarlegt brot á þeim samningsviðmiðunum og því samningsumboði sem ríkisstjórnin fékk frá Alþingi ( 8. desember á síaðsta ári)
Alþingi setti svo í sumar fyrirvara og skilyrði vegna ríkisábyrgðarinnar. Ríkisstjórnin vill nú eyðileggja þetta og brjóta á bak aftur og stórskaða þannig stöðu okkar og hagsmuni Íslands. Þessi samningur er afleitur og ríkisábyrgðin er óverjandi. Ég segi því nei.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook