10.12.2009 | 15:23
Upplogna strútsaðferðin
Margt er aðfinnsluvert við vinnubrögð ríkisstjórnarinnar. Það fer til dæmis ekkert á milli mála að ráðherrar hafa tileinkað sér tilskipanastjórnun. Hugmyndin um að deila og drottna hefur tekið sér bólfestu í hugarheimi ráðamanna. Nokkuð sem þeir gagnrýndu hér fyrrmeir og sögðust ekki ætla að viðhafa.
Mál eru rifin út úr nefndum Alþingis án þess að þau séu unnin. Fyrirheit um tilteknar breytingar á einstökum málum fara fyrir lítið af því að svo mikið liggur við að senda þau skilaboð út í þjóðfélagið hverjir ráði. Svoleiðis ofríkistilburðir hefna sín og greiða síst fyrir þingstörfum.
En sennilega er ríkisstjórnin að gera sín mestu mistök með óvönduðum vinnubrögðum og skorti á framtíðarsýn og forgangsröðun.
Ærið er nú starfið að koma saman fjárlögum við þær erfiðu aðstæður sem nú ríkja. Fjárhagsleg staða margra heimila er í hreinu uppnámi. Atvinnulífið stynur undan stjórnarstefnunni og uppsagnir og launalækkanir eru daglegt brauð. Á meðan aðhyllist ríkisstjórnin aðferðina sem logið hefur verið upp á strútfuglana; stingur haus sínum í sandinn.
Ríkisstjórnin teygir sig í verkefnum út um víðan völl í stað þess að einbeita sér að þeim verkefnum sem mest eru áríðandi. Sem er að hyggja að hagsmunum heimilanna, rekstrarskilyrðum atvinnulífsins og koma saman almennilegum fjárlögum. Tilburðir ríkisstjórnarinnar í þeim efnum eru í skötulíki. Enginn hefur trú á því sem ríkisstjórnin er að gera og fyrir vikið tefjast þær nauðsynlegu umbætur sem grípa þarf til, alveg von úr viti.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook