Ríkisstjórnin hlýðir rödd að handan

AGSÞegar við i þingflokki Sjálfstæðisflokksins settum fram hugmyndir okkar um skattlagningu lífeyris með nýjum hætti fékk það blendnar móttökur. Talsmenn sumra lífeyrissjóða - en alls ekki allra – mótmæltu. En aðrir tóku þessu vel. Þar á meðal sumir ráðherrar úr ríkisstjórninni. Mér er þar minnisstæðastur Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sem fór einkar jákvæðum orðum um tillöguna.

Það var því tilefni til að ætla að ríkisstjórnin tæki málið upp á arma sína, þó í breyttri mynd yrði. En allt fór það á annan veg.

Það hefur bögglast dálítið fyrir manni að skilja ástæður þessa. En í gær blasti hún við. Var eins og rödd að handan. Það er að segja röddin kom að handan; handan yfir hafið, frá sjálfum aðalstöðvum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ( sem skammstafaður er IMF upp á ensku, AGS upp á okkar ylhýra mál) Til þess að fyrirbyggja allan misskilning, var þetta ekki rödd þess manns sem Ögmundur Jónasson festi við nafngiftina landsstjóra. Nei þetta var boðskapur sjálfs erkibiskupsins.  Sjálfur Mark Flanagan talaði. Hvorki meira né minna.

Þetta eru engir smá kallar, að því er virðist og í mjög elskulegum samskiptum við ríkisstjórnina. Munum að Indriði  H Þorláksson  pólitískur aðstoðarmaður fjármálaráðherra kallaði þá svo kumpánlega,  Kæra Mark og Kæra Franek, í hinum frægu tölvupóstum sem láku úr leyndarhjúpi  ríkisstjórnarinnar í Icesavemálinu.

Og  nú þegar hún hefur hljómað röddin, handan yfir hafið þá verður þetta strax allt skiljanlegra. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn talaði.  Og ríkisstjórnin hlýddi. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vildi ekki aðferð sem forðaði okkur í nauðum frá harkalegum sköttum og sársaukafullum niðurskurði . Og ríkisstjórnin hlýddi.  Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir borgið Icesave og ríkisstjórnin hlýðir.

Þetta er verklagið. - Og ríkisstjórnin gleðst.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband