Hættulegt lesefni?

ViðskiptablaðiðÞað vekur nokkra undrun að sá mikilvirki álitsgjafi Egill Helgason skuli ekki fylgjast með skrifum í Viðskiptablaðinu. Hann segir frá því sjálfur að hann sé nær hættur að sjá blaðið. Og syrgir raunar þau örlög sín. Úr þessu á hann örugglega hægt með að bæta. Með því að gerast áskrifandi gæti hann tryggt sér að eiga þess kost að lesa þetta ágæta vikurit.

Af skrifum Egils má glögglega ráða að hann hafi ekki kært sig um að lesa blaðið vegna þeirra sjónarmiða sem þar gat að líta. Segir það all nokkuð um hinn þrönga sjónarhól þessa ágæta manns. Fróðleik sinn um skrif blaðsins virðist hann svo sækja í DV og skrif Jóhanns Haukssonar blaðamanns á því blaði. Verða þó hvorugur af sanngirni sakaðir um hlutlægni í frásögnum eða nokkuð af því taginu; hvorki DV eða Jóhann. Bæði Jóhann og DV eru með klára "agendu", svo vitnað sé í orðalag téðs Egils Helgasonar. Það leynir sér hvorki í skrifum né efnistökum.

Viðskiptablaðið er á hinn bóginn gríðarlega mikilvægur þáttur í fjölmiðlaflóru okkar. Þar eru ýmis viðtekin sjónarmið skoruð á hólm og margar helgimyndir úr pólitískum rétttrúnaði brotnar. Fréttaskýringar eru góðar, bryddað upp á efni sem aðrir fjölmiðlar hafa fremur hljótt um. Og svo er óaðskiljanlegur hluti Viðskiptablaðsins yfirburða blað; Fiskifréttir, sem enginn getur látið framhjá sér fara sem vill fylgjast með sjávarútvegi.

Og loks fylgja hinu ágæta Viðskiptablaði blöð um golf og hestamennsku; tvær af vinsælustu íþróttum landsins. Og hestamennskan í viðbót vaxandi atvinnugrein, útflutningsatvinnuvegur sem  ber hróður íslenska hestsins um lönd og álfur.

Þeir eru auðvitað til sem hræðast það að lesa um annað en það sem fellur sem flís við sjónarmiðarassinn sinn. Varla er Egill Helgason í þeim hópi?  




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband