Leyndarhyggju-ríkisstjórnin

Viðeigandi verkfæriEr nokkur búinn að gleyma þeim fyrirheitum sem ríkisstjórnin lagði upp með; að ástunda gagnsæja stjórnsýslu og draga ekkert undan? Þessi loforð eru í fersku minni flestra, enda stutt síðan að þau voru gefin. En ríkisstjórnin er undantekningin. Hana brestur minni þegar kemur að efndum þessara fyrirheita og svo sem í samræmi við annað  þegar kemur að því að standa við gefin loforð.

Staðan í Icesavemálinu er einsdæmi og til marks um þá leyndarhyggju, pukur og leyniskjalaáráttu sem plagar ríkisstjórnina.

Gróin og virt bresk lögmannsstofa hefur greint frá því í bréfi til formanns fjárlaganefndar Alþingis að haldið hafi verið gögnum frá sjálfum utanríkisráðherranum, sem varðaði þetta mikla mál. Utanríkisráðherranum hafi verið kynnt tiltekið efni Icesavemálsins, en sú kynning hafi verið ritskoðuð, að ósk formanns íslensku samninganefndarinnar.

Utanríkisráðherrann segir að engin slík kynning hafi farið fram og að hann hafi ekki setið slíkan upplýsingafund. Ég spurði því á Alþingi í gærkveldi hvort um einhvers konar skyggnilýsingar- eða miðilsfund, þar sem utanríkisráðherrann hafi ekki verið mættur eiginlega, heldur bara birst með yfirskilvitlegum hætti.

Væri málið ekki svona grafalvarlegt, þá væri það sprenghlægilegt. En mál af þessari stærðargráðu, sem er löðrandi af pukri ríkisstjórnarinnar er einsdæmi. Það er óforsvaranlegt og það er skammarlegt, en í samræmi við annað.

Gleymum því ekki, að æ ofan í æ, hefur þurft að slíta upplýsingar út úr stjórnvöldum með töngum. Leyndarhyggjan er orðinn algjör plagsiður í störfum og verkum ríkisstjórnarinnar.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband