Sjálfum sér samkvæmur?

BessastaðirMiðað við fyrri yfirlýsingar Ólafs Ragnars Grímssonar forseta ætti enginn vafi að leika á því að hann hyggist EKKI staðfesta lögin sem samþykkt voru á Alþingi þann 30. desember sl. um Icesave. Yfirlýsingar forsetans frá því að hann synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar 2. júní árið 2004 og áritun hans með skírskotun til fyrirvara Alþingis varðandi hina fyrri Icesvaelöggjöf nú í haust, er svo afdráttarlausar og stefnumarkandi að niðurstaðan ætti að vera augljós.

Ef hann hyggst að minnsta kosti vera sjálfum sér samkvæmur.

En ástæða þess að vangaveltur eru uppi í fjölmiðlum þessi dægrin um þessi mál er augljóslega sú að menn,- fræðimenn jafnt og aðrir -  útiloka ekki að forsetinn láti einhver önnur sjónarmið ráða för að þessu sinni.

Það hlýtur það að vera mikið umhugsunarefni fyrir forsetann að yfirleitt sé verið að efast um að hann nálgist þetta mál út frá öðrum hvötum og rökum en þegar hann mótaði nýja stefnu með því að synja fjölmiðlalögunum staðfestingar. Í því felst auðvitað mjög alvarlegt vantraust á handhafa þess embættis, sem á að vera sérstakt sameiningartákn þjóðarinnar.

Það gengur auðvitað ekki að það sé eins konar samkvæmisleikur um áramót að velta því fyrir sér hvort forsetinn okkar verði sjálfum sér samkvæmur í svona afdrifaríku máli.

Þegar forsetinn synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar tók hann sér vald sem áður var óþekkt. Yfirlýsing hans nú í haust um Icesavelöggjöfina batt hendur hans. Með þessu reisti hann sér  vegvísa sem nú virðast þvælast fyrir ákvörðuninni.

En eftirfarandi staðreyndir liggja fyrir. Lögin sem Alþingi samþykkti nutu naums meirihluta á þingi, mikill meirihluti þjóðarinnar vill hafna þeim, þeim fjölgar um tíu þúsund á dag sem vilja að forsetinn komi í veg fyrir staðfestingu þeirra, aldrei hafa jafn margir krafist þess að forsetinn synji staðfestingar, ríkisstjórnin hefur lagt fram frumvarp sem segir að ef 30 þúsund manns krefjist þess verði að setja mál í þjóðaratkvæði, það er vaxandi hljómgrunnur fyrir þjóðaratkvæðaleið í stórum málum. Og enn skal minnt á að núerandi forseti hefur markað stefnu sem við lausn þeirrar stöðu sem nú er uppi ætti að þýða að hann synji löggjöfinni staðfestingar.

Sem sagt: Ef  Ólafur Ragnar Grímsson er sjálfum sér samkvæmur staðfestir hann ekki lögin. Liggi aðrar hvatir og ástæður að baki, staðfestir hann þau; og viðurkennir um leið að hann hafi haft á röngu að standa 2. júni árið 2004 varðandi fjölmiðlalögin.

 

 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband