Darling hótar forsetanum

Alistair DarlingAlistair Darling fjármálaráðherra Bretlands er samur við sig. Frá fyrsta degi hefur hann haft í hótunum og reynt að beita kúgunartilraunum gagnvart okkur Íslendingum. Misbeiting bresku hryðjuverkalaganna felldi að lokum íslensku bankana. Þingnefnd á breska þinginu sem skoðaði málin komst að því að bresk stjórnvöld hafi farið algjörlega offari og  brugðist við langt umfram öll möguleg tilefni.

Og nú heldur breska fjármálaráðherraskömmin hótunum sínum áfram. Að því leyti má treysta á Mr. Darling. Hann bregður aldrei vana sínum.

Nú er greinilega ætlun hans að reyna að hræða forseta Íslands til þess að skrifa upp á Icesavelöggjöfina. Það sýnir viðtalið við hann hjá Dow Jones fréttastofunni, sem hefur birst í íslenskum fjölmiðlum í dag.

Þetta gerir hann þrátt fyrir að hann megi auðvitað vita að Ólafur Ragnar Grímsson verði því aðeins sjálfum sér samkvæmur með því að synja staðfestingu á Icesavelögunum.  Meiri ögrun er varla hægt að ímynda sér frá forystumanni þjóðar  gagnvart forseta fullvalda þjóðríkis, en að hafa í frammi hótanir við þvílíkar aðstæður

Ástæða þess að breski fjármálaráðherrann hegðar sér þannig með svo ósæmilegum hætti er auðsæ. Reynsla hans af samskiptum við ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er sú að hún lætur alltaf undan hótunum. Íslensku þjóðina og ríkisstjórnina má alltaf niðurlægja án þess að ráðherrarnir bregðist við. Það virðist sama hvað boðið er upp á; alltaf kyngir ríkisstjórnin. Ríkisstjórnin er alltaf jafn stimamjúk og kyssir sífellt á vöndinn.

Þess vegna telur breski fjármálaráðherrann að best sé til árangurs að halda áfram hótunum. Hann trúir því sennilega að hið sama eigi við úti á Bessastöðum og í Stjórnarráðinu  við Lækjartorg með núverandi húsbændum. Að menn beygi sig í duftið ef hótanir komi úr barka bresks fjármálaráðherra.

 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband