Er Ísland úthrópað?

Steingrímur og Jóhanna stuðuð af forsetaNú hefur það rækilega sýnt sig hvað það er slæmt að vera með veiklundaða, ístöðulitla og kjarklausa ríkisstjórn á örlagatímum. Þegar forsetinn hafði synjað Icesavelögunum staðfestingar, hóf ríkisstjórnin beitta tangarsókn - innávið. Hræðsluáróðurinn dundi á okkur, prýðilega bergmálaður af sumum fjölmiðlanna, ekki síst Ríkisútvarpinu.

Um hitt var lítt hirt, að koma skoðunum okkar á framfæri erlendis. Ríkisstjórnin var meira upptekin af því að skapa sér vígstöðu í áróðri hér innanlands, en að verja málstað okkar erlendis, þar sem mest á reið.

Vitnað var í harkaleg ummæli hollenskra og breska stjórnmálamanna. En við hverju bjuggust menn? Var ekki vitað að hollensk og bresk stjórnvöld studdu ríkisstjórn okkar í Icesavelöggjöfinni? Enda ekki skrýtið, svo hagstæður sem samningurinn var hagsmunum þessara ríkja. Og síðan sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra frá því í Sjónvarpinu í gær að ekkert hefði verið að marka þessar yfirlýsingar ráðherranna útlensku. Þeirra yfirlýsingar hefðu verið til pólitísks heimabrúks í löndum þeirra og annar og mildari tónn væri í þeim í prívatsamtölum.

Og þá vaknar spurningin. Hvers vegna þurfti þá að bregðast við með móðursýkisköstum á borð við þau sem gripu stjórnarliða í kjölfar ákvörðunar forsetans?

Því var skrökvað að okkur látlaust í fjölmiðlum í gær að erlendir fjölmiðlar væru upp til hópa neikvæðir í garð Íslendinga. Allt var það orðum aukið svo ekki sé meira sagt. Mestan part var umfjöllunin býsna yfirveguð og merkilegt nokk þá voru viðbrögð lesenda breskra fjölmiðla ótrúlega jákvæð í okkar garð í fjölmörgum tilvikum. Jafnvel fréttamenn sem þekktir hafa verið að andstyggilegum skrifum um Ísland, gripu frekar til varna fyrir okkur.

Í dag birtast okkur jákvæð skrif frá útlöndum og er skemmst að nefna viðskiptaritstjóra BBC sem segir ofureinfaldlega á bloggi sínu sem birtist á heimasíðu BBC: "Nú erum við allir Íslendingar". og í leiðaraskrifum hins virta breska dagblaðs Financial Times er sagt: "Sendum ekki Íslendinga í skuldafangelsi".

Þrátt fyrir allt þetta létu fjölmiðlar í gær sem að himnarnir væru bókstaflega að hrynja yfir okkur. En eins og Ólafur Ragnar Grímsson forseti benti á í dag á blaðamannafundi sínum þá er sú lýsing langt frá staðreyndum málsins og þvert á móti er fjölmiðlaumfjöllunin stöðugt jákvæðari.

 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband