Spilastokkur í stað fiðlunnar

RáðherrakapallEin lífseigasta goðsögn allra tíma segir að rómverski keisarinn Neró hafi spilað á fiðlu þegar Róm brann. Engar sögur hafa farið af kunnáttu forystufólks ríkisstjórnarinnar, Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar, í fiðluleik. Þau geta því ekki hermt eftir hinum rómverska keisara að því leytinu. En þau hafa önnur ráð.

Þær fréttir berast af hinni lánlausu og sundurtættu ríkisstjórn að þar sé verið að leggja kapal; ráðherrakapal. Við það er sagt að þau iðji daga langa, Steingrímur J. og Jóhanna. Á meðan er hvorki athygli þeirra né fjölmiðla bundin við önnur viðfangsefni ríkisstjórnarinnar; hinnar verkasmáu ríkisstjórnar.

Við könnumst svo sem við þessa takta ríkisstjórnarinnar frá fyrri tíð. Þegar eldar hafa brunnið og logað sem glaðast hefur forsætisráðherrann beint athygli sinni að allt öðrum málum, svo sem persónukjöri, Stjórnlagaþingi, eða skýrslugerðum um eitt og annað. Það dreifir huganum og athygli umræðunnar.

Um sumt markast spilakapall ríkisstjórnarinnar vitaskuld af fyrirhuguðum breytingum á stjórnarráðinu. En mestan part er þetta vel þegið fyrir örmagna ríkisstjórn til þess að skapa sér nýtt andrými. Og af því að fiðluleikur úr Stjórnarráðinu hefði væntanlega verið til fárra fiska metinn, var upplagt að grípa til spilastokksins og leggja nýjan ráðherrakapal. Það dreifir að minnsta kosti athyglinni frá öðrum og erfiðari málum ríkisstjórnarinnar og dæmalausu ráðleysi hennar.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband